11. jan. 2010

Íþróttamaður Garðabæjar 2009

Florentina Stanciu, markmaður handknattleiksliðs kvenna hjá Stjörnunni er íþróttamaður Garðabæjar 2009.
  • Séð yfir Garðabæ

Florentina Stanciu, handknattleikskona með Stjörnunni er íþróttamaður Garðabæjar 2009.

Florentina hefur staðið í markinu með sigursælu liði Stjörnunnar í handknattleik síðustu 3 árin og er nú á sínu 4. tímabili með Stjörnunni. Florentina Stanciu býr í Garðabæ og hefur gert undanfarin ár. Hún fæddist 28. júlí 1982 í Rúmeníu og hefur æft íþróttir frá barnsæsku. Handknattleik hefur hún stundað í tæp 20 ár.

Í rökstuðningi með vali Florentinu sem íþróttamanns Garðabæjar 2009 segir m.a.:

Á árinu 2009 vann Meistaraflokkur kvenna hjá Stjörnunni nánast alla titla sem í boði voru. Liðið varð Íslandsmeistari og bikarmeistari og vann titilinn Meistari meistaranna. Vinningshlutfall liðsins var hátt í 100% á árinu. Florentina Stanciu (Grecu) er lykilleikmaður í þeim árangri sem náðst hefur hjá meistaraflokki kvenna í handknattleik hjá Stjörnunni.

Florentina æfir íþrótt sína um 7 - 10 sinnum á viku í um 20 tíma vikulega auk þess að spila um 50-60 leiki árlega fyrir sitt félagslið og landslið.

Hefur spilað í Rúmeníu, Frakklandi og á Íslandi


Flora, eins og hún er kölluð, hefur unnið til ótal titla í Rúmeníu, Frakklandi og á Íslandi. Hún hefur verið leikmaður félagsliða í fremstu röð í sínum löndum. Fyrst með Uni Ursus Cluj í Rúmeníu og síðan með einu besta félagsliði Evrópu og Frakklands Handball Metz Metropole. Hún lék um með ÍBV um skeið, vann til titla með liðinu og komst með því í undanúrslit í áskorendakeppni Evrópu. Síðast en ekki síst hefur hún verið lykilleikmaður í einu sigursælasta liði sem Stjarnan hefur nokkurn tíma átt. Á þeim fáu árum sem liðin eru síðan Flora kom til liðs við félagið hefur liðið unnið nánast alla titla sem í boði hafa verið, þ.e. þrjá Íslandsmeistaratitla, tvo bikarmeistaratitla, tvo Reykjavíkurmeistaratitla, einn deildarbikarmeistaratitill og í tvígang titilinn Meistari meistaranna, auk Afreksbikars UMFÍ.


Flora komst í 8 liða úrslit Evrópukeppni 2003 með Uni Ursus, í undanúrslit árið eftir með Metz Metropole í Evrópukeppni bikarhafa, í undanúrslit með ÍBV árið þar á eftir í áskorendakeppni Evrópu, ásamt því að hafa spilað um 12 Evrópuleiki fyrir Stjörnuna, þar sem frábær árangur hefur náðst á undanförnum árum.

Í landsliði Rúmeníu


Florentína var á árinu 2008 valin í landslið Rúmeníu. Hún er orðin fastamaður í einu albesta landsliði heims og í september sl. tryggði hún Rúmeníu sigur á World Cup sem fram fór í Danmörku, með því að tryggja Rúmeníu sigur á Noregi í úrslitaleiknum með frábærri markvörslu á síðustu sekúndum leiksins. Hún lék með liðinu í úrslitakeppni Evrópumeistaramótsins haustið 2008 og er nú komin til Kína með liðinu til að leika í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins.

Tekið framförum á Íslandi


Það er í raun mikið afrek hjá leikmanni sem leikur hér á landi að vera komin þetta langt í alþjóðlegum kvennahandbolta. Því til staðfestingar má geta þess að í byrjun desember 2009 birtist langt viðtal við Florentinu á einum helsta fréttavef Rúmeníu (gsp.ro) þar sem hún rómar veru sína á Íslandi og segist hvergi annars staðar vilja vera. Hún segir, í viðtalinu, að hún hafi tekið miklum framförum hér á undanförnum árum, lært að hugsa eins og sigurvegari sem aldrei gefst upp og það sýni sig m.a. í því að þjálfari og leikmenn rúmenska landsliðsins treysti henni til að standa vaktina í marki landsliðsins. Árangur hennar og sú staðreynd að hún sé leikmaður hjá íslensku félagsliði og jafnframt markvörður í landsliði Rúmeníu hefur vakið athygli erlendis og hefur verið fjallað um það í erlendum fjölmiðlum í tengslum við HM í Kína.

Frábær félagi

Ragnhildur Inga Guðbjartsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar tilkynnti um kjör íþróttamanns Garðabæjar og sagði þá m.a.

„Ástundun, framkoma og reglusemi Floru eru eiginleikar sem hafa skipað henni í fremstu röð íþróttamanna í Íslandi, jafnframt því að vera í hópi þeirra bestu í heiminum í sinni íþrótt. Flora er frábær félagi og smitar frá sér bjartsýni og ánægju. Hún vinnur í Garðabæ við uppeldisstörf og nýtur þar vinsælda og virðingar hjá ungu kynslóðinni. Hún er öllum einstök fyrirmynd í hegðan og viðhorfi til leiks og keppni, hún er "idol" fjölmargra leikmanna í handknattleik innan og utan Stjörnunnar. Flora hefur einstakt viðhorf til íþróttarinnar og félaga sinna og hefur unnið sér virðingu allra nær og fjær fyrir andlega og líkamlega getu sína á sviði íþrótta og mannlegra samskipta.

Florentina Stanciu er fremst íþróttamanna í  Garðabæ í dag og á fyllilega þá virðingu skilið að verða valin íþróttamaður Garðabæjar 2009.“

Páll Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar afhendir Florentina Stanciu, íþróttamanni Garðabæjar 2009 bikar

Nokkrir titlar og viðurkenningar


Titlar með Stjörnunni:
• Íslandsmeistari 2009
• Íslandsmeistair 2008
• Íslandsmeistari 2007
• Bikarmeistari 2009
• Bikarmeistari 2008
• Meistari Meistaranna 2009
• Meistari Meistaranna 2008
• Deildarbikarmeistari 2008
• Deildarbikarmeistari 2007
• Afreksbikar UMFÍ 2008

Titlar með ÍBV:
• Íslandsmeistari 2006

Viðurkenningar á Íslandi:
• Besti markvörður N1-deildarinnar 2009 
• Besti markvörður N1-deildarinnar 2008
• Besti markvörður DHL-deildarinnar 2007 
• Besti markvörður DHL-deildarinnar 2006
• Íþróttamaður Stjörnunnar 2008

Landslið Rúmeníu
• Úrslitakeppni Evrópumeistaramótsins 2009
• Úrslitakeppni Heimsmeistaramótsins 2008
• Fjölmargir landsleikir í undankeppnum og æfingamótum, m.a.;
o World Cup – september 2009
o Undankeppni HM 2009

Auk titla í heimalandi sínu, Rúmeníu og í Frakklandi.

Hefur verið valin besti markvörður á HM unglinga og einnig á EM unglinga á sínum yngri árum