7. jan. 2010

Verk barna úr Garðabæ í almanaki

Myndir af leikföngum sem voru búin til af börnum í leik- og grunnskólum í Garðabæ sl. haust prýða almanak Sorpu fyrir árið 2010.
  • Séð yfir Garðabæ

Myndir af leikföngum sem börn í leik- og grunnskólum í Garðabæ bjuggu til sl. haust prýða almanak Sorpu fyrir árið 2010. Almanakið var unnið í samstarfi Sorpu, Hönnunarsafns Íslands og Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar.

Búin til í vinnusmiðju á Garðatorgi

Leikföngin urðu til í vinnusmiðju á Garðatorgi og í skólunum sjálfum, eftir námsstefnu sem kennurum var boðið upp á fyrr um haustið þar sem þeir lærðu fjölbreyttar leiðir til að búa til leikföng úr ýmsum verðlausum efnum. Á námstefnunni fjallaði einn fremsti sérfræðingur Indlands á sviði hefðbundinna leikfanga, Sudarshan Khanna prófessor, um leikfangagerð úr einföldum og endurnýttum efniviði. Í kjölfarið var svo verkleg kennsla þar sem um 200 kennarar gerðu nokkur einföld en heillandi leikföng byggð á hönnun og hugmyndafræði Sudarshans. Námsstefnan var samstarfsverkefni Hönnunarsafnsins og Hafnarborgar og var Sorpa aðalstyrktaraðili hennar.

 

Nemendur úr öllum leik- og grunnskólum í Garðabæ sóttu vinnusmiðjuna á Garðatorgi í kjölfar námsstefnunnar og unnu þar með ýmsar af  hugmyndum Sudarshan Khanna. Fleiri hönnuðir voru einnig fengnir til liðs við verkefnið t.d. hönnunarteymi frá „Ráðuneytinu“ og „Lúka Design“ og komu þeir með hugmyndir að nokkrum áhugaverðum leikföngum og leikjum til viðbótar úr mismunandi efnivið. Mörg og fjölbreytt leikföng urðu til í vinnusmiðjunni og er hægt að sjá myndir af nokkrum þeirra í almanakinu.

 

Afrakstur þessarar vinnu í vinnusmiðjunni er byrjunin á vinnuferli fyrir Listadaga ungmenna 2010 þar sem þemað verður „að leika sér“.

"Uppskriftir" að leikföngum

Í almanakinu eru einnig uppskriftir að skemmtilegum leikföngum úr verðlausu efni sem hægt er að nýta til að endurvinna ýmislegt sem til fellur heima fyrir. Þannig er hægt að stunda eigin endurvinnslu, föndra og auðga um leið leik barnanna á einfaldan hátt.

 

Hægt er að nálgast eintak af almanaki Sorpu 2010 í þjónustuveri Garðabæjar við Garðatorg á meðan birgðir endast.

 

Frétt um námsstefnuna á Garðatorgi í september 2009