Doktor í leikskólafræðum
Anna Magnea Hreinsdóttir, leikskólafulltrúi Garðabæjar, varði doktorsritgerð sína við uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands þriðjudaginn 15. desember sl. Anna Magnea er fyrsti leikskólakennarinn sem lýkur doktorsgráðu frá íslenskum háskóla.
Doktorsritgerð Önnu Magneu heitir „Af því að við erum börn“: Lýðræðislegt umræðumat á menntun barna og þjónustu fjögurra íslenskra leikskóla / “Because we are children”: A deliberative democratic evaluation of education and services in four preschools in Iceland.
Í rannsókninni skoðaði Anna Magnea starf fjögurra leikskóla á Íslandi og lagði mat á það með aðferðum lýðræðislegs umræðumats. Menntun leikskólabarnanna og þjónusta við þau var metin af fulltrúum foreldra, starfsfólks og barna. Einnig voru skoðu áhrif einkaaðila á rekstur leikskóla. Tilgangur rannsóknarinnar var að vekja umræður um stöðu barna í leikskólum og færa rök fyrir mikilvægi þess að leitað sé eftir sjónarmiðum barnanna sjálfra og hvernig þau geta haft áhrif á það starf sem fram fer í leikskólanum.
Hægt er að lesa um doktorsvörnina í frétt á vef Rannung.
Annna Magnea hefur starfað hjá Garðabæ frá árinu 2005. Hún rak leikskólann Kjarrið frá árinu 1991 til ársins 2008.
Þess má geta að Anna Magnea er annar doktorinn í hópi starfsmanna á bæjarskrifstofunum en Gunnar Einarsson bæjarstjóri lauk doktorsgráðu í stjórnun og menntunarfræðum frá háskólanum í Reading í Englandi á árinu 2008.