13. jan. 2014

Harpa og Jóhann eru íþróttamenn ársins 2013

Knattspyrnufólkið Harpa Þorsteinsdóttir og Jóhann Laxdal eru íþróttamenn Garðabæjar árið 2013. Lið ársins er meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu hjá Stjörnunni
  • Séð yfir Garðabæ

Knattspyrnufólkið Harpa Þorsteinsdóttir og Jóhann Laxdal úr Stjörnunni eru íþróttamenn Garðabæjar árið 2013. Tilkynnt var um kjör þeirra sunnudaginn 12. janúar sl. Lið ársins 2013 er meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu hjá Stjörnunni.

Íþróttakona Garðabæjar 2013

Harpa Þorsteinsdóttir

Harpa byrjaði að æfa knattspyrnu, með yngsta flokki kvenna á þeim tíma og hefur alltaf lagt sig fram við að mæta á allar æfingar. Harpa og aðrir liðsmenn í meistaraflokki Stjörnunnar æfa að jafnaði 10 klst. á viku yfir vetrarmánuðina en yfir 20 klst. þegar mest er á sumrin.

Árangur síðasta keppnistímabils var einstakt í íslenskri knattspyrnusögu. Harpa varð þá Íslandsmeistari í knattspyrnu í liði sem sló öll fyrri árangursmet í Íslandsmóti, sigraði með fullu húsi stiga og hafði meiri yfirburði í deildinni en áður hafði þekkst. Auk þess fékk liðið fæst mörk á sig í sögu Íslandsmóts kvenna. Hún varð einnig deildarbikarmeistari, markahæsti leikmaður Íslandsmótsins og valin leikmaður ársins í úrvalsdeild kvenna. Harpa lék 11 landsleiki á árinu og var í liðinu sem komst í átta liða úrslit Evrópumótsins í Svíþjóð.

Harpa var valin leikmaður ársins hjá mfl. kvenna í Stjörnunni. Hún er frábær í hópi, mjög reglusöm og ástundun óaðfinnanleg. Framkoma innan og utan vallar til algerrar fyrirmyndar. Harpa er fremst meðal jafningja í frábæru liði. Mikill sigurvegari sem var í margföldu Íslandsmeistaraliði Stjörnunnar í 2. fl. kvenna á sínum tíma og hefur verið í öllum titilliðum mfl. kvenna; Íslandsmeistari 2011, bikarmeistari 2012, Íslandsmeistari 2013 – auk tveggja deildarbikarssigra og sigurs í Meistarakeppni KSÍ.

Íþróttakarl Garðabæjar 2013

Jóhann Laxdal

Jóhann Laxdal hefur æft knattspyrnu með Stjörnunni frá unga aldri. Hann er í dag einn af máttarstólpum meistaraflokks karla í knattspyrnu, sem í sumar náði sínum besta árangri frá upphafi í deild þeirra bestu og lék einnig til úrslita í bikarkeppni KSÍ. Jóhann er gríðarlega mikilvægur liðinu, bæði innan vallar sem utan. Hann er mikil fyrirmynd í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur og klárar öll verkefni 100%, mætir á allar æfingar og gerir mikið af aukaæfingum auk þess að vera mjög hvetjandi og frábær liðsfélagi. Sannarlega fyrirmyndar íþróttamaður.

Jóhann á að baki 147 leiki í meistaraflokki og hefur skorað 11 mörk í þeim, bæði í deild og í bikar. Sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk spilaði hann árið 2007, þá aðeins 17 ára gamall. Jóhann náði þeim mikla áfanga að vera valinn í A-landslið karla í fyrsta skipti í sumar og lék sinn fyrsta landsleik í ágúst á móti Færeyjum á Laugardalsvelli. Hann var einnig í hóp landsliðsins á móti Sviss og Albaníu, en fékk því miður ekki tækifæri til að koma inn á í þeim leikjum. Með yngri landsliðum á Jóhann að baki 22 landsleiki, með U21, U19 og U17.

Lið ársins

Stjarnan - Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu

Árangur síðasta keppnistímabils var einstakt í íslenskri knattspyrnusögu. Liðið varð þá Íslandsmeistari í knattspyrnu og sló öll fyrri árangursmet í Íslandsmóti, sigraði með fullu húsi stiga og hafði meiri yfirburði í deildinni en áður hafði þekkst. Auk þess fékk liðið fæst mörk á sig í sögu Íslandsmóts kvenna. Liðið varð einnig deildarbikarmeistari auk sigurs í Meistarakeppni KSÍ og átti markahæsti leikmann Íslandsmótsins og leikmann ársins í úrvalsdeild kvenna.

Á fremri myndinni hér fyrir neðan eru frá vinstri: Sigurður Guðmundsson, formaður íþrótta- og tómstundaráðs, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Harpa Þorsteinsdóttir, Jóhann Laxdal og Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar.

Á seinni myndinni er lið ársins í Garðabæ 2013, meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu.

Við sama tilefni var Páli Grétarssyni veitt sérstök heiðursviðurkenning fyrir framlag sitt til íþróttamála.Sjá frétt.