19. nóv. 2009

Hátíð á Degi íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu sem var mánudagurinn 16. nóvember var haldinn hátíðlegur í grunnskólum Garðabæjar.
  • Séð yfir Garðabæ

Dagur íslenskrar tungu sem var mánudagurinn 16. nóvember var haldinn hátíðlegur í grunnskólum Garðabæjar.

 

Í Flataskóla voru tvær hátíðardagskrár þar sem allir nemendur skólans voru virkir þátttakendur og fluttu efni í tali og tónum undir stjórn Hjördísar Ástráðsdóttur, tónmenntakennara. Þar voru m.a. kynntir tveir handhafar verðlauna Jónasar Hallgrímssonar, þau Þórarinn Eldjárn sem fékk verðlaunin árið 1998 og Guðrún Helgadóttir sem fékk verðlaunin árið 2005.

 

Í Garðaskóla komu allir nemendur á sal og hafði hver árgangur skipulagt dagskrá fyrir sinn árgang sem nemendur hlýddu á. Dagskráin var hin glæsilegasta og allur undirbúningur til fyrirmyndar.

 

Í Hofsstaðaskóla komu nemendur yngra stigs saman. Ýmislegt var á dagskrá en fyrsta atriðið var í höndum sex nemenda úr 4. bekk sem sögðu frá Jónasi Hallgrímssyni listaskáldinu góða, í máli og myndum. Nemendur úr 1. og 2. bekk stigu síðan á svið og skemmtu samnemendum sínum með söng og ljóðalestri. Að lokum söng salurinn tvö lög Á íslensku má alltaf finna svar og Ísland er land þitt undir stjórn Soffíu tónmenntakennara.

 

Í Sjálandsskóla tíðkast að nemendur skólans fara út úr húsi og flytja ljóð eða söng fyrir fólk á förnum vegi á Degi íslenskrar tungu. Nemendur í 5.-6. bekk fóru í ár í heimsóknir í Fjölbrautskólann í Garðabæ og síðan í Jónshús. Nemendur sungu tvö lög úr Fólkinu í blokkinni sem þau sýndu í skólanum um daginn og einnig lagið Komdu birta.

 

Dagur íslenskrar tungu er tileinkaður þjóðskáldinu Jónasi Hallgrímssyni og er ávallt haldinn á fæðingardegi hans, 16. nóvember.

 

Fleiri myndir frá deginum og meiri umfjöllun er á vefjum skólanna.

 

Frá Degi íslenskrar tungu 2009 í Flataskóla

Frá hátíðardagskrá í Flataskóla.

Frá Degi íslenskrar tungu 2009 í Hofsstaðaskóla

Dagskrá á sal í Hofsstaðaskóla.

Frá Degi íslenskrar tungu 2009 í Sjálandsskóla

Nemendur Sjálandsskóla heimsóttu Jónshús og tóku lagið.

Frá hátíðardagskrá í Garðaskóla.