13. nóv. 2009

Friðsælt samfélag

Innbrotum í heimahús fækkar hlutfallslega i Garðabæ sem er ólíkt því sem gerist annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.
  • Séð yfir Garðabæ

Innbrotum í heimahús fækkar hlutfallslega i Garðabæ sem er ólíkt því sem gerist annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Almennt eru afbrot færri í Garðabæ en víðast hvar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og iðulega undir meðaltali í samanburði við önnur svæði.

Fá brot í friðsælu samfélagi

Þetta er meðal þess sem fram kom á árlegum fundi bæjarstjóra og annarra stjórnenda bæjarins með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og samstarfsmönnum hans. Á fundinum kynnti Sævar Örn Guðmundsson aðalvarðstjóri þróun brota í Garðabæ 2006-2009 en þar kom fram að þótt innbrotum og eignaspjöllum hafi fjölgað í Garðabæ er fjöldi þeirra í langflestum tilfellum minni en gerist á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali. Garðabær er því afar friðsælt samfélag. Innbrotum í heimahús fjölgar jafnframt minna en öðrum innbrotum og vill lögreglan m.a. þakka það öflugri nágrannavörslu í stórum hluta Garðabæjar. 

Kynningu Sævars má nálgast með því að smella hér. 

Garðbæingar sjá lögregluna sjaldan

Á fundinum voru jafnframt kynntar niðurstöður úr könnun um reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Í henni kemur m.a. fram að 86% Garðbæinga telja að lögreglan skili góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í bænum. Þrátt fyrir þetta sagðist mun lægra hlutfall, eða 56% íbúa Garðabæjar í sömu könnun sjá lögregluna einu sinni í mánuði eða sjaldnar. Þetta var rætt nokkuð á fundinum og kom þar fram mikill vilji hjá lögreglunni að gera betur í þessum efnum. Veggjakrot, nágrannavarsla, eftirlitsmyndavélar og ótti íbúa við innbrot var einnig til umræðu, svo fátt eitt sé nefnt.

Breytt fyrirkomulag

Eins og Garðbæingar vita er ekki lengur dagvakt á lögregluvarðstofunni við Garðatorg heldur er bænum nú þjónað frá lögreglustöðinni á Flatahrauni 11 í Hafnarfirði, sem er lögreglustöð 2. Þar er starfstöð þrjátíu og fimm manna lögregluliðs sem sinnir löggæslustörfum í Garðabæ, Hafnarfirði og á Álftanesi.  Tuttugu og fimm þeirra eru á sólarhringsvöktum við almenna löggæslu, sjö sinna rannsóknum og þrír eru stjórnendur. Lögreglustöð 2 nýtur jafnframt aðstoðar annarra deilda hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þegar svo ber undir og þá er umferðardeild embættisins sýnileg í Garðabæ sem og annars staðar. 

 

Frétt um fundinn og niðurstöður fyrrnefndrar könnunar eru á vef lögreglunnar.

Fundur með lögreglustjóra 12. nóv. 2009