6. nóv. 2009

Íbúafundur 11. nóv.

Bæjarstjóri boðar til íbúafundar miðvikudaginn 11. nóvember nk. undir yfirskriftinni, Þú getur haft áhrif! Fundurinn verður haldinn í Flataskóla kl. 17.30-19. Tilefni fundarins er gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010.
  • Séð yfir Garðabæ
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar boðar til fundar með íbúum bæjarins miðvikudaginn 11. nóvember nk. Fundurinn verður haldinn í Flataskóla kl. 17.30-19.00. Tilefni fundarins er gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010.

 

Á fundinum vill bæjarstjóri upplýsa íbúa um fjárhagslega stöðu bæjarins og leita til þeirra um hvernig rétt sé að bregðast við lækkandi tekjum. Í viðtali í Garðapóstinum sem kom út í gær segist Gunnar vera sannfærður um að bæjarbúar búi yfir mörgum góðum hugmyndum um hvernig hægt sé að hagræða í rekstri bæjarins. Hann vilji því leita til þeirra; bæði til að heyra hugmyndir til sparnaðar en einnig til að heyra hvar íbúar vilja alls ekki að sparnaðurinn komi fram.

Stuttar kynningar og umræður

Á fundinum kynna bæjarstjóri, endurskoðandi bæjarins frá KPMG og fjármálastjóri Garðabæjar starfsemi bæjarins og fjárhagslega stöðu. Reiknað er með að kynningarnar taki í allt um hálftíma.

Að kynningum loknum verður unnið í minni hópum þar sem fundargestum gefst tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Hópstjóri leiðir umræðuna í hverjum hóp og allir fá tækifæri til að koma sínum tillögum að.

Allar hugmyndirnar sem koma fram verða hafðar til hliðsjónar við gerð fjárhagsáætlunar.

Íbúar Garðabæjar eru hvattir til að mæta á fundinn og hafa áhrif á gerð fjárhagsáætlunar 2010 með því að koma sínum áherslum og tillögum á framfæri.

Viðtalið við Gunnar Einarsson í Garðapóstinum 5. nóvember 2009.