2. nóv. 2009

Efla hreysti skólabarna

Undanfarna daga hafa fimm kennarar og skólastjórnendur frá Englandi, Frakklandi og Þýskalandi heimsótt Sjálandsskóla í tengslum við umsókn þessara aðila að Comeniusarverkefni.
  • Séð yfir Garðabæ

Undanfarna daga hafa fimm kennarar og skólastjórnendur frá Englandi, Frakklandi og Þýskalandi heimsótt Sjálandsskóla í tengslum við umsókn þessara aðila að Comeniusarverkefni. Að umsókninni standa einnig skólar á Spáni, Portúgal og Ítalíu.

Comeniusarverkefni miða að því að koma á gæðastarfi í skólum og tryggja Evrópuvitund í menntun. Styrkt eru fjölþjóðleg samstarfsverkefni við skóla víðs vegar í Evrópu. Einnig er lögð áhersla á að auka möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar kennara og efla tungumálanám á öllum skólastigum.

Verkefnið sem Sjálandsskóli tekur þátt í kallast “Fit for life” en markmiðið með því er að efla hreysti skólabarna og hvetja þau til að temja sér heilbrigðan lífsstíl. Gunnar Einarsson bæjarstjóri hitti hina erlendu gesti í Sjálandsskóla fyrir helgina og kynnti skólastefnu Garðabæjar. Á myndinni má sjá Gunnar ásamt fulltrúum Sjálandsskóla í verkefninu og gestum.