30. okt. 2009

Hús Náttúrufræðistofnunar rís

Nýtt hús Náttúrurfræðistofnunar Íslands er byrjað að rísa í Urriðaholti. Áformað er að byggingu þess verði lokið í október 2010 og þá geti Náttúrufræðistofnun flutt starfsemi sína í Garðabæinn.
  • Séð yfir Garðabæ

Nýtt hús Náttúrurfræðistofnunar Íslands er byrjað að rísa í Urriðaholti. Áformað er að byggingu þess verði lokið í október 2010 og þá geti Náttúrufræðistofnun flutt starfsemi sína í Garðabæinn.

Langþráð lausn á húsnæðismálum

Urriðaholt ehf. er eigandi húss Náttúrufræðistofnunar en stofnunin tekur það á leigu til 25 ára. Húsið er sérstaklega hannað utan um starfsemi Náttúrufræðistofnunar. Þar verður beitt nýjustu tækni til að tryggja varðveislu náttúrugripanna, sem margir hverjir eru mjög verðmætir og sjaldgæfir, en söfnun þeirra nær aftur til 1755. Meðal annars verður fullkomin hita- og rakastýring í safnaskálum, en hún skiptir miklu máli til að tryggja varðveislu náttúrugripanna, sérstaklega þeirra sem eru þurrkaðir. Aðgengi að öllum náttúrugripum stórbatnar, svo og öll rannsóknaraðstaða.

”Við erum mjög ánægð með að það skuli loksins, loksins ætla að sjá fyrir endann á húsnæðismálunum,” segir Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands í frétt á vef Urriðaholts ehf.

Stofnunin hefur verið í bráðabirgðahúsnæði við Hlemm í tæpa fimm áratugi og að auki með geymsluaðstöðu í leiguhúsnæði víða um höfuðborgarsvæðið. Rannsóknaraðstaða hefur verið frekar bágborin og geymsluaðstaða svo ófullnægjandi að ýmsir náttúrugripir hafa eyðilagst.

Rís við Jónasartorg

Arkís hannaði hús Náttúrufræðistofnunar Íslands. Það verður 3.500 fermetrar að stærð og mun standa við Jónasartorg, vestast á Urriðaholti. Bæjarstjórn samþykkti að gefa torginu þetta nafn til að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar, sem oft er kallaður fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn. Húsið samanstendur af þremur kjörnum sem eru tengdir saman með millibyggingum.

Meginhlutverk Náttúrufræðistofnunar er að rannsaka íslenska náttúru og stunda skipulega heimildasöfnun um hana. Stofnunin skráir og safnar eintökum af plöntum, dýrum, bergtegundum og jarðamyndunum, stundar rannsóknir á þessu sviði og miðlar upplýsingum. Náttúrufræðistofnun veitir jafnframt ráðgjöf um nýtingu náttúrunnar og leiðbeinir um vernd og nýtingu hennar.

Sjá nánar á vef Urriðaholts, www.urridaholt.is

Hús Náttúrufræðistofnunar Íslands rís í Urriðaholti

Hús Náttúrufræðistofnunar Íslands rís í Urriðaholti