Viðbragðsáætlun vegna inflúensu
Bæjarráð Garðabæjar hefur samþykkt viðbragðsáætlun Garðabæjar vegna heimsfaraldurs inflúensu sem miðar að því að tryggja að öll lykilstarfsemi haldist órofin. Jafnframt samþykkti bæjarráð skipan neyðarstjórnar Garðabæjar sem er tengiliður við aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins þegar vá stendur yfir.
Viðbragðsáætlun Garðabæjar var unnin skv. samræmdu sniðmáti fyrir höfuðborgarsvæðið undir leiðsögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Í henni er skilgreint hvaða starfsemi bæjarins þarf alltaf að haldast órofin og hvernig hægt er að tryggja það þrátt fyrir miklar fjarvistir starfsfólks. Hvert svið bæjarins og hver starfseining, svo sem grunn- og leikskólar hafa jafnframt gert sínar áætlanir þar sem órofin starfsemi er skilgreind nánar og hvernig brugðist verður við miklum fjarvistum.
Neyðarstjórn Garðabæjar vinnur að stjórnun bæjarins þegar slík aðstaða skapast að þörf er á. Hún hefur heimild til að taka ákvarðanir varðandi fjárútlát sem ekki geta beðið til að tryggja órofna starfsemi lykilþátta.
Viðbragðsáætlun Garðabæjar er vistuð á vef bæjarins undir Stjórnsýsla / Viðbragðsáætlun Garðabæjar.