22. sep. 2009

Tvenn gull til Hofsstaðaskóla

Hofsstaðaskóli fékk tvenn gullverðlaun í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda í ár.
  • Séð yfir Garðabæ

Hofsstaðaskóli fékk tvenn gullverðlaun í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda í ár. Annars vegar fékk skólinn gullverðlaun fyrir mestan fjölda innsendra hugmynda og hins vegar fékk nemandi skólans Ragnar Björgvin Tómasson í 6. Ö.M. gullverðlaun í flokknum hugbúnaður.

 

Þrír nemendur úr Hofsstaðaskóla komust í úrslit í Nýsköpunarkeppninni í ár. Það voru þau Elísabet Emma Pálsdóttir, Harpa Guðrún Hreinsdóttir og Ragnar Björgvin Tómasson. Þeim bauðst í framhaldinu að sækja vinnusmiðju þar sem þau fengu að þróa hugmyndir sínar nánar, búa til veggspjöld eða annað sem lýsti hugmynd þeirra sem best.Lokahóf Nýsköpunarkeppninnar fór fram laugardaginn 19. september í Grafarvogskirkju. Þar voru mættir 44 hugmyndamiðir úr 23 grunnskólum landsins ásamt foreldrum, kennurum og öðrum velunnurum.

 

Forseti Íslands verndari keppninnar afhenti 15 verðlaunahöfum verðlauni í lokahófinu. Þeirra á meðal var Garðbæingurinn Ragnar Björgvin Tómasson í 6. Ö.M í Hofsstaðaskóla. Hann hlaut gullviðurkenningu fyrir hugmynd sína Boltaflaut sem er í flokknum hugbúnaður.


Á lokahófinu voru einnig veittar viðurkenningar til þeirra þriggja skóla sem áttu flestar innsendar hugmyndir.  Bronsviðurkenningu hlaut Brúarárskóli í Fljótsdalshéraði. Silfurviðurkenningu hlaut Þjórsárskóli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og gullviðurkenningu hlaut Hofsstaðaskóli og fær því þann heiður að varðveita farandbikarinn í ár.

 

Sædis S. Arndal kennari í smíði og nýsköpun hélt utan um vinnu nemenda Hofsstaðaskóla sem tóku þátt í keppninni.

 

Myndin er tekin eftir verðlaunaafhendinguna. Á henni eru frá vinstri: Margrét Harðardóttir, skólastjóri Hofsstaðaskóla, Ragnar Björgvin Tómasson, Elísabet Emma Pálsdóttir og Sædís S. Arndal

 

Vefur Nýsköpunarkeppninnar.