18. sep. 2009

Leikur og hugvit á Garðatorgi

Hátt í 200 manns mættu á námsstefnu um leik og leikfangagerð sem var haldin í ,,gamla Hagkaupshúsinu" við Garðatorg í Garðabæ föstudaginn 18. september.
  • Séð yfir Garðabæ

Hátt í 200 manns mættu á námsstefnu um leik og leikfangagerð sem var haldin í ,,gamla Hagkaupshúsinu" við Garðatorg í Garðabæ föstudaginn 18. september.  Á námsstefnuna komu kennarar úr leik- og grunnskólum og annað áhugafólk um hönnun, sköpun og nýjar aðferðir í uppeldi og kennslu. Einn fremsti sérfræðingur Indlands á sviði hefðbundinnar leikfangagerðar, prófessor Sudarshan Khanna, var aðalfyrirlesari námsstefnunar.


Bæjarstjórar Garðabæjar og Hafnarfjarðar, Gunnar Einarsson og Lúðvík Geirsson,  mættu við setningu námsstefnunnar og buðu Sudarshan Khanna velkominn.


Þátttakendur í námsstefnunni voru á einu máli um að efni námsstefnunnar væri afar fróðlegt og skemmtilegt og ætti eftir að nýtast þeim vel í starfi. Sudarshan Khanna náði vel til fólks, hann sýndi fjölmörg dæmi um einföld leikföng sem hægt er að búa til úr verðlitlu og jafnvel verðlausu efni og skýrði hvernig væri hægt er með hugviti og sköpun að nýta þau til að útskýra flókin vísindalögmál fyrir börnum.

 

Þátttakendur lærðu að búa til leikföng

 

Námsstefnan var tvískipt og í fyrri hlutanum var fyrirlestur og sýnikennsla en í seinni hlutanum gátu þátttakendur sjálfir fengið að prófa búa til einföld leikföng undir leiðsögn Sudarshan Khanna.

 

Á námsstefnunni var búið að koma upp efnisveitu þar sem þátttakendur gátu fengið alls konar efnivið til að vinna úr.  Efnisveitan kemur einnig að góðum notum fyrir skóla Garðabæjar þennan vetur þegar unnið verður að undirbúningi ,,Listadaga barna og ungmenna" sem verða haldnir vorið 2010 í Garðabæ.

 

Hönnunarsafn Íslands og Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar stóðu fyrir námstefnunni í samvinnu við skólaskrifstofur Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Aðalstyrktaraðilar námsstefnunar eru IKEA og SORPA ásamt fjölmörgum öðrum aðilum.

 

Eftirsóttur fyrirlesari

 

Prófessor Sudarshan Khanna er eftirsóttur fyrirlesari og kennari á sviði hönnunar. Hann hefur ferðast víða um heiminn og haldið námsstefnur í líkingu við þá sem var í Garðabænum.

Sudarshan Khanna  hefur starfað fyrir Hönnunarsafn Indlands sem aðalhönnuður og yfirmaður leikfangamiðstöðvar safnsins ásamt því að vera í forsvari fyrir fræðslu- og rannsóknardeild þess. Í starfi sínu hefur hann haft frumkvæði að nýjum námskeiðum á sviði hönnunar þar sem hann tengir saman hönnun og vísindi.

 

Stuttar heimildarmyndir hafa verið gerðar um störf Sudarshan Khanna og hefur hann haldið námsstefnur um hönnun og leikfangagerð á Indlandi og víða um heim. Prófessor Sudarshan Khanna hefur skrifað þrjár bækur um leikföng, hönnun, sköpun og kennslu.