11. sep. 2009

Forvarnastarf skilar árangri

Öflugt forvarnastarf undanfarinna ára í Garðabæ hefur skilað þeim árangri að hlutfallslega færri unglingar í 8., 9. og 10. bekk í Garðabæ reykja daglega, en jafnaldrar þeirra á höfuðborgarsvæðinu í heild og á landsvísu
  • Séð yfir Garðabæ

Öflugt forvarnastarf undanfarinna ára í Garðabæ hefur skilað þeim árangri að hlutfallslega færri unglingar í 8., 9. og 10. bekk í Garðabæ reykja daglega, en jafnaldrar þeirra á höfuðborgarsvæðinu í heild og á landsvísu samkvæmt niðurstöðum könnunar sem framkvæmd var af fyrirtækinu Rannsóknum og greiningu fyrr á þessu ári.

 

Í sömu könnun sagðist jafnframt lægra hlutfall unglinga í Garðabæ hafa orðið ölvað sl. 30 daga en unglinga á höfuðborgarsvæðinu í heild og á landsvísu.

 

Gunnar Richardsson forvarnafulltrúi segir að góðan árangur megi ekki síst þakka árverkni og samstöðu foreldra auk þess sem áherslur forvarnanefndar og áhugi skólastofnana á að gera sífellt betur hafi mikið að segja. "Reynslan sýnir okkur að ef allir eru samstíga og sýna samtakamátt er hægt að ná fram breytingum og sýna góðan árangur," segir Gunnar.


Það sem er ekki eins jákvætt í niðurstöðum skýrslunnar er að neysla og fikt með munn- og neftóbaks mælist örlítið meiri hér en á landsvísu, sérstaklega á meðal elstu þátttakanda í könnuninni. "Það er greinilegt að það þarf að finna leiðir til að koma í veg fyrir það," segir Gunnar. "Líkt og með áfengi og reykingar er það samtakamáttur allra sem starfa með og umgangast ungmennin dags daglega sem er líklegast til að skila árangri."


Skýrslan með niðurstöðum könnunarinnar er á vef Garðabæjar undir forvarnir.