29. júl. 2009

Umhverfisviðurkenningar 2009

Eigendur fimm íbúðarhúsalóða og einnar atvinnulóðar fengu í gær afhenta viðurkenningu fyrir snyrtilegar lóðir.
  • Séð yfir Garðabæ

Páll Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar og Gunnar Einarsson bæjarstjóri afhentu í gær eigendum fimm íbúðarhúsalóða og einnar atvinnulóðar viðurkenningu fyrir snyrtilegar lóðir. Páll afhenti einnig íbúum götunnar Bjarkaráss skilti til viðurkenningar þess að gatan var valin snyrtilegasta gata bæjarins 2009 og umhverfi Bæjarbrautar hlaut sérstaka umhverfisviðurkenningu.

Umhverfisnefnd gerir árlega tillögu til bæjarstjórnar um hverjir skuli hljóta viðurkenningar fyrir snyrtilegar lóðir.

Í ár hlutu viðurkenningu eigendur eftirtalinna íbúðarhúsalóða (lýsingar á lóðunum eru úr umsögn umhverfisnefndar):

Smáraflöt 7

Garðurinn að Smáraflöt 7 er framúrskarandi. Hann er ævintýri líkastur og ber barnaleiksvæði á baklóð ríku hugmyndaflugi eigenda vitni. Einstök snyrtimennska einkennir þennan garð.

Háholt 4

Lóðin að Háholti 4 er til fyrirmyndar. Hún er mjög snyrtileg með fallegri aðkomu, matjurtareitum og safnhaugakössum fyrir garðaúrgang. Sérkenni lóðarinnar er að hún er byggð utan í bröttu Hnoðraholtinu, því er mikill hæðamismunur í lóðinni, sem er vel nýttur.

Asparlundur 8

Er sérstaklega snyrtilegur garður í Lundahverfi, með nýjum lóðarkanti meðfram götu og göngustíg. Á baklóð er ræktunarreitur með matjurtum og jarðaberjum, einnig eru þar ræktaðar skógarplöntur. Safnhaugakassi er í garðinum. Það er auðséð að eigendur garðsins njóta þess að dvelja í honum.

Fífumýri 13

Í garðinum að Fífumýri 13 er fjölbreytt úrval trjáa, runna og blóma. Þar er alltaf eitthvað blómstandi og áhugavert að njóta. Garðinum er skipt í dvalarsvæði og leiksvæði allt í kringum húsið.

Furuás 8

Lóðin er einstaklega snyrtileg í Ásahverfi. Þetta er ungur garður sem mikil alúð hefur verið lögð í smekklegan frágang á. Þar hefur matjurtunum verið komið fyrir í gróðurbeðum á milli trjáa. Athygli vekur skemmtilega útfærð sorptunnuskýli sem eru sameiginleg með nágranna á lóðamörkum.

Viðurkenningu fyrir lóð fyrirtækis eða stofnunar hlýtur í ár:

Rekstrarfélag Litlatúns 3

Frágangur á fyrirtækjalóð Litlatúns 3 er til fyrirmyndar og að lóðin var fullbúin strax við opnun verslana og annara fyrirtækja. Lóðin er snyrtileg á allar hliðar, engin eiginleg baklóð.

Umhverfisviðurkenningu hlýtur umhverfi Bæjarbautar

Bæjarbúar hafa oft látið í ljós ánægju með umhverfi Bæjarbrautar, sem skartar árið um kring fjölbreyttum trjágróðri og jólalýsingu í skammdeginu. Gangstígur liggur innan við trjágróðurinn sem skilur að umferðagötu og gangstíg. Gróðurbeltið er um 600 lengdarmetrar og þarfnast töluverðrar umhirðu.

Bjarkarás, snyrtilegasta gatan í Garðabæ 2009

Bjarkarás er gata með einbýlishúsum norðan megin og fjölbýlishúsum/keðjuhúsum að sunnanverðu. Lóðir þeirra húsa eru nýfrágengnar. Heildaryfirbragð þessara nýju lóða er samræmt. Heildarmynd götunar er mjög snyrtileg.