3000 skátar á Garðatorgi
Yfir 3000 skátar lögðu af stað á alþjóðlegt skátamót frá Garðatorgi í morgun. Stór hluti hópsins gisti í Garðabæ sl. nótt.
Skátarnir taka þátt í mótinu Roverway 2009 sem haldið er á Íslandi dagana 20.-28. júlí. Þátttakendur í mótinu eru um 3.200 og koma frá 42 löndum. Skátafélagið Vífill í Garðabæ tók að sér að sjá stórum hluta hópsins fyrir gistingu aðfaranótt dagsins í dag (mánudags) og gistu um 2000 erlendir skátar í bænum þá nótt. Allir þátttakendur á mótinu mættu síðan á Garðatorg i morgun þar sem um 50 rútur sóttu þá og keyrðu að Háskóla Íslands þar sem mótið var sett.
Mótsgestum verður skipt í 53 sveitir sem fara á ólíka staði um land allt og munu vinna að þörfum samfélagsverkefnum hver á sínum stað, m.a. í Garðabæ þar sem skátar verða að störfum á morgun, þriðjudag.