15. júl. 2009

Spurningar um söguslóðir

Í Minjagarðinum að Hofsstöðum er hægt að taka þátt í léttum spurningaleik og happdrætti, fyrir þá sem eru á ferðinni og vilja kynna sér sögulegar minjar á landinu.
  • Séð yfir Garðabæ

Samtök um sögutengda ferðaþjónustu standa fyrir léttum spurningaleik og happdrætti í sumar, fyrir þá sem eru á ferðinni og vilja kynna sér sögulegar minjar á landinu.

Minjagarðurinn að Hofsstöðum í Garðabæ er hluti af þessum samtökum og tekur þátt í spurningaleiknum. Á hverjum stað, sem leikurinn nær til, þarf að svara einni spurningu sem eru birtar í bæklingnum ,,Söguslóðir á Íslandi". Hægt er að nálgast bæklinginn í þjónustuveri Garðabæjar og í Minjagarðinum sjálfum.


Þeir sem taka þátt í leiknum þurfa að fara á a.m.k. fjóra staði og svara einni spurningu á hverjum stað. Svörin eru skrifuð á reit í bæklingnum. Á hverjum stað þarf að fá stimpil um að svarið sé rétt. Stimplar vegna Minjagarðsins fást í þjónustuveri Garðabæjar. Þar er einnig kassi þar sem hægt er að skilja eftir rétt svör, þegar fjórir staðir hafa verið heimsóttir. Allir sem skila réttum svörum taka þátt í Söguslóðarhappdrættinu.  Dregið verður í happdrættinu tvisvar, um fimm góða vinninga í hvort skipti, fyrst 15. október 2009 og síðan 15. apríl 2010.

Í Minjagarðinum sjálfum hefur verið sett upp lítið skilti þar sem sagt er frá leiknum og lítill glær kassi fyrri bæklingana. Öllum er heimilt að taka þátt í leiknum og happdrættinu.

Sjá einnig, www.soguslodir.is

Frá Minjagarðinum að Hofsstöðum