4. jún. 2009

Atvinnuátak hafið

Um 230 ungmenni hófu störf hjá Garðabæ í vikunni og munu þau vinna í sumar að fjölbreyttum verkefnum víðsvegar í bæjarlandinu.
  • Séð yfir Garðabæ

Um 230 ungmenni hófu störf hjá Garðabæ í vikunni og munu þau vinna í sumar að fjölbreyttum verkefnum víðsvegar í bæjarlandinu.

Öllum boðin vinna

Ungmennin eru i svokölluðu atvinnuátaki sem sett var af stað til að bregðast við erfiðu ástandi í atvinnumálum skólafólks í sumar en bæjarstjórn ákvað að allir sem höfðu sótt um sumarstarf fengju boð um starf. Átaksverkefnið stendur í 7 til 8 vikur. Að auki voru um 80 ungmenni ráðin til annarra starfa í sumar, t.d. sem flokksstjórar í Vinnuskólanum, í garðyrkjudeild, þjónustumiðstöð og við fleiri störf.

Yngstu starfsmennirnir í átakinu eru fæddir árið 1992 og þeir vinna í 6 klukkustundir á dag, frá kl. 9-15. Þeir sem fæddir eru 1991 og eldri vinna í 7 sjö klukkustundir á dag frá kl. 9-16.

Vinna í bænum og í upplandinu

Vinnuhópar þeirra sem fæddir eru árið 1992 munu vinna á svæðum vestan við byggða hluta Garðabæjar og jafnvel að verkefnum innan bæjarins sjálfs. Þeir sem eru fæddir 1991 og fyrr vinna aðallega ofan byggðar t.d. við Vífilsstaðavatn, á skógræktarsvæðunum í Garðabæ og í Heiðmörk.

Hægt að senda inn tillögu að verkefnum

Yfirverkstjóri átaksins er Ingvar Steinn Birgisson, hann stýrir verkefninu sem er í umsjón og ábyrgð garðyrkjustjóra og forstöðumanns þjónustumiðstöðvar Garðabæjar. 

Hagnýtar upplýsingar fyrir starfsmenn átaksins eru á vefnum undir umhverfi og skipulag/ garðyrkjudeild.

Íbúar Garðabæjar geta sent inn tillögu að verkum sem þarf að vinna í bæjarlandinu í sumar með því að fylla út til þess gert form á vef Garðabæjar.