4. jún. 2009

Framkvæmdir í Akrahverfi

Ýmsar framkvæmdir standa nú yfir í Akrahverfi sem miða að því að fegra og snyrta umhverfi þeirra sem þar búa. Framkvæmdirnar eru bæði á opnum svæðum og gatnamannvirkjum.
  • Séð yfir Garðabæ

Ýmsar framkvæmdir standa nú yfir í Akrahverfi sem miða að því að fegra og snyrta umhverfi þeirra sem þar búa.  Framkvæmdirnar eru bæði á opnum svæðum og við gatnamannvirki.

Leiksvæði við Haustakur

Helstu framkvæmdirnar eru við gerð gangstétta og graseyja í hverfinu. Einnig hefur verið úbúið fullbúið leiksvæði við enda Haustakurs með leiktækjum og trjágróðri í beðum. 

Verið er að tína upp rusl og fjarlægja af óbyggðum lóðum og opnum svæðum. Til stendur að fjarlægja grjót og steypueiningar þar sem þær eiga ekki heima. Byrjað er að jafna mold yfir opin svæði neðst í hverfinu og verður grasfræi sáð í þau næstu daga. Einnig verður gengið frá svæðum meðfram malbikuðum göngustígum.

Gott framtak íbúa

Íbúar við Hjálmakur hafa látið til sín taka í fegrun hverfisins og fengu þeir viðurkenningu fyrir sitt framtak eftir hreinsunardagana í vor. Íbúar götunnar hreinsuðu upp rusl í umhverfi sínu þar á meðal á auðum byggingarlóðum í nágrenninu. Þeir fengu einnig leyfi frá eiganda óbyggðar lóðar í götunni til að útbúa leiksvæði fyrir börn á lóðinni. Leiktæki fengu þau að hluta lánuð  frá bænum en einnig lagði ein fjölskylda í götunni til rólusamstæðu sem hún hafði keypt í Kanada fyrir nokkrum árum og flutt með sér heim.

Leiksvæði fyrir yngstu börnin í Akrahverfi

Nýtt leiksvæði fyrir yngstu börnin í Akrahverfi.

Leiksvæði við Hjálmakur

Bráðabirgðaleiksvæði við Hjálmakur sem íbúar götunnar útbjuggu með leyfi eiganda lóðarinnar og stuðningi frá Garðabæ.