29. maí 2009

Helgi verðlaunaður

Helgi Grímsson, skólastjóri Sjálandsskóla fékk í gær Íslensku menntaverðlaunin í flokki námsefnishöfunda
  • Séð yfir Garðabæ

Helgi Grímsson, skólastjóri Sjálandsskóla fékk í gær Íslensku menntaverðlaunin í flokki námsefnishöfunda. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Hofsstaðaskóla

Námsefnið Auðvitað

Helgi hefur samið kennsluefni á sviði náttúrufræða undir heitinu Auðvitað. Í rökstuðningi dómnefndar segir að kennsluefnið samþætti á afar áhugaverðan hátt eðlis-, efna- og jarðfræði fyrir miðstig grunnskóla. Auðvitað er í þremur heftum og fylgja hverju þeirra kennsluleiðbeiningar sem gera kennurum kleift að gera námsefnið fjölbreytt, áhugavert og skemmtilegt, eins og segir í greinargerð dómnefndar.

Í lokaorðum hennar segir ennfremur að námsefnið Auðvitað falli vel vel að áherslum aðalanámskrár grunnskóla á umhverfismennt og stuðli að aukinni fjölbreytni í grunnskólum á sviði náttúrufræða og umhverfismenntar.
Hugmynd að nýju efni úr þemakennslu í Sjálandsskóla

Helgi hefur einnig gefið út námsspilið Fróðleikur sem tekur til námsgreinanna íslensku, landafræði, náttúrufræði og samfélagsfræði og nýtist vel með námsefninu Auðvitað. Þá hefur komið út eftir hann námsefnið Skrifað í skrefum, ferlisritun og tengt því forritið Söguslóð þar sem nemendum er kennt að tjá sig skýrt, greinilega. Þessu til viðbótar hefur Helgi samið námsefni á sviði félagsstarfa og útivistar.

Gaman er að geta þess að Helgi leggur þessa dagana lokahönd á námsefni sem fjallar um árið 1918. Hugmyndina að efninu segir hann hafa kviknað eftir vel heppnað þema í vetur hjá 8. bekk í Sjálandsskóla.

Norðlingaskóli fékk verðlaun fyrir nýsköpun

Aðrir verðlaunahafar voru:

Silvía Pétursdóttir, kennari í Áslandsskóla í Hafnarfirði í flokknum: Ungt fólk sem hefur í upphafi kennsluferils sýnt hæfileika og lagt alúð við starf sitt.

Þorvaldur Jónasson myndmennta- og skriftarkennari við Réttarholtsskóla hlaut verðlaun í flokknum: Kennari sem hefur skilað merku ævistarfi eða á annan hátt skarað fram úr.

Síðast en ekki síst hlaut Norðlingaskóli verðlaun í flokknum: Skólar sem sinnt hafa vel nýsköpun eða farsælu samhengi í fræðslustarfi.

Rökstuðning dómnefnda og upplýsingar um verðlaunin má lesa á vef forseta Íslands.

Frá afhendingu íslensku menntaverðlaunanna í Hofsstaðaskóla 2009

Forseti Íslands tilkynnir hverjir hljóta Íslensku menntaverðlaunin 2009

Frá afhendingu íslensku menntaverðlaunanna í Hofsstaðaskóla 2009

Verðlaunahafar ásamt forseta Íslands

Frá afhendingu íslensku menntaverðlaunanna í Hofsstaðaskóla 2009

Nokkrir nemendur Hofsstaðaskóla sem leggja stund á tónlistarnám í Tónlistarskóla Garðabæjar léku tvö lög við athöfnina undir stjórn Jóhanns Björns Ævarssonar.