Gott framtak við hreinsun
Leikskólinn Sunnuhvoll og íbúar við Hjálmakur fengu viðurkenningu fyrir þátttöku í hreinsunardögum í Garðabæ 2009 sem voru afhentar á lokahátíð hreinsunardaganna á Garðatorgi 8. maí.
Við afhendingu viðurkenningarinnar til Sunnuhvols gat Gunnar Einarsson bæjarstjóri þess m.a. að nemendur skólans hefðu tínt upp rusl af lóð Vífilsstaða og í nágrenni hennar. Þetta sé annað árið í röð sem Sunnuhvoll taki virkan þátt í hreinsunardögum.
Íbúar í Hjálmakri tóku sig saman og hreinsuðu upp rusl í umhverfi sínu þar á meðal á auðum byggingarlóðum í nágrenninu og fengu þeir einnig viðurkenningu fyrir sitt framtak. Bæjarstjóri sagði það ánægjulegt að sjá íbúa í nýju hverfi standa saman um að halda umhverfi sínu snyrtilegu.
Hreinsunarátakið, þar sem hópar eru hvattir til að hreinsa í sínu nærumhverfi hófst 18. apríl og lauk formlega 8. maí. Góð þátttaka var í hreinsuninni og fengu alls sextán hópar styrk fyrir gott framtak við hreinsun nærumhverfis. Bæjarstjóri færði öllum þessum hópum þakkir fyrir sitt framtak í ávarpi sínu.
Á lokahátíð hreinsunardaganna sáu nefndarmenn í umhverfisnefnd Garðabæjar um að baka vöfflur handa gestum og þeim sem áttu leið framhjá. Þeir, ásamt starfsmönnum garðyrkjudeildar, veittu einnig upplýsingar um matjurtargarða sem hægt er að leigja gegn vægu gjaldi og tóku við skráningum.
Hægt er að fá upplýsingar um matjurtagarðana hjá garðyrkjudeild, Lyngási 18 í síma 525 8580.
Fulltrúi íbúa við Hjálmakur tekur við viðurkenningarskjali frá Gunnari Einarssyni bæjarstjóra
Umhverfisnefnd sá um vöfflubakstur fyrir gesti og gangandi