27. des. 2013

Fuglalíf í Garðabæ 2013

Fuglalíf í Garðabæ hefur verið vaktað með rannsóknum og fuglatalningum á vegum umhverfisnefndar. Fuglatalningar í ár voru framkvæmdar af þeim Jóhanni Óla Hilmarssyni og Dr. Ólafi Einarssyni.
  • Séð yfir Garðabæ

Fuglalíf í Garðabæ hefur verið vaktað með rannsóknum og fuglatalningum á vegum umhverfisnefndar. Fuglatalningar í ár voru framkvæmdar af þeim Jóhanni Óla Hilmarssyni og Dr. Ólafi Einarssyni. Svæðin sem þeir vöktuðu voru við Arnarnesvoginn, Vífilsstaðavatn, Urriðavatn og í Vatnsmýri sunnan Vífilsstaða. 17 talningar fóru fram á tímabilinu febrúar til nóvember 2013. Þessi svæði hafa áður verið talin af þeim skýrsluhöfundum, því fæst greinargóður samanburður yfir breytur á svæðunum.

Í lokaorðum höfunda benda þeir á að vissulega séu sveiflur í lífríkinu eins og eðlilegt megi telja. Helstu áhyggjuefni skýrsluhöfunda eru fækkun vaðfugla í Arnarnesvogi, fækkun dugganda á Vífilsstaðavatni og minna fuglalíf á Urriðavatni. Þeir hvetja til áframhaldandi friðlýsinga s.s. Urriðavatns og Vatnamýrar sunnan Vífilsstaða. Jafnframt hvetja þeir til þess að verndaráætlun verði gerð fyrir svæðin. Þeir hafa áhyggjur af útbreiðslu lúpínu og því að runnagróður sé að þekja Dýjamýri við Urriðavatn. Höfundar hafa áður bent á að endurheimta skuli mýrina þar.
Með því að hlúa að flórgoðanum og útbúa varpstaði fyrir hann á Vífilsstaðavatni, eru líkur á að varppörum þar muni fjölga. Jafnframt þarf að framfylgja hundabanni og lengja það fram yfir varptíma flórgoðans, eins og gert var sl. sumar.

Umhverfisnefnd fyrirhugar að láta vakta fuglalíf á Álftanesi á næsta ári. 

Áhugasömu fuglafólki er bent á að framundan er vetrartalning fugla í umsjón Náttúrufræðistofnunar Íslands sjá frétt á vef stofnunarinnar

Fuglalíf í Garðabæ 2013 - skýrsla