7. maí 2009

5-víra rafkerfi í Urriðaholti

Fulltrúar Garðabæjar, Urriðaholts og Hitaveitu Suðurnesja undirrituðu í gær samkomulag um að svokallað 5-víra rafkerfi verði lagt í vesturhluta Urriðaholts.
  • Séð yfir Garðabæ

Fulltrúar Garðabæjar, Urriðaholts og Hitaveitu Suðurnesja undirrituðu í gær samkomulag um að svokallað „5-víra“ rafkerfi verði lagt í vesturhluta Urriðaholts. Um er að ræða tilrauna- og þróunarverkefni sem Urriðaholt ehf. styrkir fjárhagslega, en Hitaveita Suðurnesja annast framkvæmdir við.

Bætt jarðsamband

Markmiðið með 5-víra rafdreifikerfinu er að bæta jarðsamband og draga þannig úr líkum á ójöfnu flæði rafmagns. Í því samhengi er oft talað um rafmengun, sem geti orsakað ójafnvægi í umhverfinu og haft neikvæð áhrif á heilsufar manna og dýra.

Áralangar rannsóknir og úrbætur sem Brynjólfur Snorrason hjá Orkulausnum hefur staðið að til að auka jarðsamband gefa sterklega til kynna að það geti gefið góða raun – og alls ekki spillt fyrir. Í samræmi við áherslur Urriðaholts ehf. á gæði skipulagsins var ákveðið að stuðla að bættu jarðsambandi rafdreifikerfisins og leggja fjármuni til þess að gera slíkt að veruleika.

Árangur mældur

Framkvæmdin felur í sér að HS setur niður allt að 80 metra djúp jarðskaut víðsvegar um Urriðaholt. Sérstakur vír, eða leiðari, frá dreifikerfi rafmagns tengist jarðskautunum. Heðfbundin rafdreifikerfi hafa 4 leiðara, en hér bætist enn einn við og því er talað um 5-víra rafdreifikerfi.

Hitaveita Suðurnesja mun mæla árangur af 5-víra kerfinu. Hins vegar mun reynslan ein leiða í ljós hver áhrifin verða af því á menn og dýr.

Áformum skipulagsins fylgt eftir

Framkvæmd þessi er í samræmi við áður kynntar fyrirætlanir Urriðaholts á þessu sviði. Þrátt fyrir að lítil hreyfing sé í Urriðaholti um þessar mundir, þá er talið mikilvægt að fylgja eftir öllum áformum skipulagsins, enda muni Urriðaholt standi sterkt að vígi þegar byggingarframkvæmdir fara af stað þegar aðstæður í efnahagslífinu leyfa.

Samkomulagið undirrituðu Gunnar Einarsson bæjarstjóri, fyrir hönd Garðabæjar, Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri fyrir hönd Urriðaholts ehf. og Albert Albertsson aðstoðarforstjóri fyrir hönd Hitaveitu Suðurnesja.