7. maí 2009

Vinabæjasamstarf rætt

Föstudaginn 8. maí nk. verður haldið sk. milliþingamót vinabæja Garðabæjar. Vinabæir Garðabæjar eru Asker í Noregi, Eslöv í Svíþjóð, Jakobstad í Finnlandi og Rudersdal í Danmörku.
  • Séð yfir Garðabæ
Föstudaginn 8.  maí nk. verður haldið sk. milliþingamót vinabæja Garðabæjar.  Vinabæir Garðabæjar eru Asker í Noregi, Eslöv í Svíþjóð, Jakobstad í Finnlandi og Rudersdal í Danmörku.  Á milliþingamótið mæta 2-4 fulltrúar frá hverjum vinabæ og farið er yfir drög að dagskrá fyrir næsta vinabæjamót sem verður haldið í Rudersdal árið 2010. 

Garðabær hefur tekið þátt í vinabæjasamstarfi þessara bæja frá árinu 1966. Annað hvert ár hafa verið haldin vinabæjamót sem vinabæirnir skiptast á að halda.  Á mótunum hafa verið fulltrúar frá bæjunum og Norrænu félögunum.  Á síðustu vinabæjamótum hefur einnig verið lögð sérstök áhersla á dagskrá fyrir börn og ungmenni með þátttöku margra m.a. íþróttafélaga, skátafélaga og tónlistarskóla.

Undanfarin ár hafa orðið breytingar á vinabæjahópum á Norðurlöndunum og er það mest tilkomið vegna sameiningar sveitarfélaga.  Rudersdal í Danmörku er eitt þeirra sveitarfélaga en það varð til við sameiningu Birkerød og Sollerød fyrir örfáum árum.  Nýjar tillögur frá þeim um framhald  vinabæjamótanna verða m.a. ræddar á milliþingamótinu sem fram fer í Garðabæ.