29. apr. 2009

Jazzinn heillaði

Jazzhátíð Garðabæjar var haldin fjórða árið í röð dagana 23.-25. apríl sl. á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar. Aðalstyrktaraðili hátíðarinnar var Íslandsbanki.
  • Séð yfir Garðabæ

Jazzhátíð Garðabæjar var haldin fjórða árið í röð dagana 23.-25. apríl sl. á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar.  Aðalstyrktaraðili hátíðarinnar var Íslandsbanki.  Hátíðin í ár bauð upp á þrenna tónleika og áhorfendur fjölmenntu alla dagana. Aðgangur var ókeypis í boði menningar- og safnanefndar Garðabæjar og Íslandsbanka.

Hátíðin hófst með pompi og prakt að kvöldi til sumardaginn fyrsta.  Upphafstónleikarnir fóru fram í Urðarbrunni, hátíðarsal Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Garðbæingar og aðrir áhugamenn um jazz fylltu nánast áhorfendasalinn.

Stórsveit úr Tónlistarskóla Garðabæjar steig fyrst á svið og hitaði upp fyrir kvöldið.  Nemendur stóðu sig afskaplega vel undir dyggri stjórn Braga Vilhjálmssonar. Næst á svið voru reynsluboltarnir í jazz/blús kvartettnum Bláum Skuggum.  Kvartettinn er skipaður þeim Sigurði Flosasyni á saxófón, Þóri Baldurssyni á hammond orgel og Pétri Östlund á trommum. Gestur kvöldsins var hinn þjóðþekkti söngvari Stefán Hilmarsson.

Jazzinn fékk einnig Garðbæinga til að fjölmenna í safnaðarheimilið Kirkjuhvol föstudagskvöldið 24. apríl þegar tríó Ómars Guðjónssonar hélt tónleika. Tríóið er skipað þeim Ómari Guðjónssyni á gítar, Þorgrími Jónssyni á kontrabassa og Matthíasi Hemstock á trommur. Ómar og félagar buðu upp á sannkallaða jazzveislu þar sem rokki og jazzi var blandað saman.

Síðustu tónleikarnir voru haldnir laugardaginn 25. apríl í Vídalínskirkju. Ellen og Eyþór fluttu þar hugljúfa sálmatónlist með jazzívafi.  Áhorfendur nutu þess að hverfa inn í heim tónlistarinnar og fóru glaðir heim að lokinni jazzhátíð.  Jazzhátíð Garðabæjar hefur svo sannarlega slegið í gegn og fagnar 5 ára afmæli sínu á næsta ári.