17. apr. 2009

Ársreikningur Garðabæjar 2008

Niðurstaða ársreiknings Garðabæjar fyrir árið 2008 ber vott um sterka fjárhagsstöðu bæjarins.
  • Séð yfir Garðabæ

Niðurstaða ársreiknings Garðabæjar fyrir árið 2008 ber vott um sterka fjárhagsstöðu bæjarins.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 5.400 milljónum króna, þar af námu rekstartekjur A-hluta 5.021 milljón kr. Rekstarniðurstaða A og B hluta var neikvæð um 38 millj. kr., en rekstarniðurstaða A-hluta jákvæð um 44 millj. kr.

Ársreikningurinn var lagður fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær.

Frávik frá fjárhagsáætlun ársins eru þau helst að tekjur bæjarins eru 246 millj. kr. hærri upphæð en áætlað var og rekstrarúrgjöld eru 191 millj. kr. hærri en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir, sem er um 4% frávik. Mismunurinn skýrist af verulegu leyti af liðum sem háðir eru breytingum á vístölum og þróun gengis og kemur sérstaklega fram á síðari hluta ársins 2008. Í því sambandi má nefna tölvuleigu, húsaleigu Sjálandsskóla, afborganir lána, ýmsa þjónustusamninga bundna vísitölum o.fl.

Langtímaskuldir voru 2.387 millj. kr. alls og þar af 2.073 í A-hluta bæjarsjóðs. Tekin voru ný langtímalán á árinu að fjárhæð 398 millj. kr. Garðabær nýtur þess nú að skuldir bæjarfélagsins eru hóflegar í samanburði við mörg önnur sveitarfélög en fjármagnsgjöld námu um 513 millj. kr. á árinu. Handbært fé í árslok nam 890 millj. kr.

Fjárfestingar ársins námu samtals 1.225 millj. kr. þar af um 734 millj. kr. til fræðslu-æskulýðs- og íþróttamála eða um 65% af framkvæmdafénu. Stærstu framkvæmdir á því sviði eru annar áfangi Sjálandsskóla, bygging nýs fimleikahúss við Ásgarð og endurbætur á félagsmiðstöðinni Garðalundi. Endurgreiddur var byggingarréttur á árinu að fjárhæð 190 millj. kr.

Kennitölur bera allar vott um sterka fjárhagsstöðu Garðabæjar. Veltufé frá rekstri var 16,7%. Veltufjárhlutfall var 2,03 og eiginfjárhlutfall 0,57. Íbúafjöldi var 10.358 þann 1. desember 2008 og er það fjölgun um 4,5% frá fyrra ári.

Álagning skatttekna var mjög stillt í hóf, útsvarprósenta 12,46% en leyfilegt hámark var á árinu 13.03%. Álagningarhlutfall fasteignagjalda í A-flokki nam 0,22%, en lögbundið hámark þess er 0,5% með heimild til 25% álags.

Afkoma Garðabæjar var góð á árinu 2008 eins og ársreikningur bæjarins ber vott um. Garðabær býr að því nú á tímum óvissu í efnahagsmálum að hafa sýnt ráðdeildarsemi og eiga nokkurn varasjóð og búa við hóflega skuldastöðu.