6. mar. 2009

Íbúðabyggð og útivist

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Helgi K. Hjálmsson, formaður Byggingasamvinnufélags félags eldri borgara í Garðabæ undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um samstarf við uppbyggingu á íbúðabyggð
  • Séð yfir Garðabæ

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri og Helgi K. Hjálmsson, formaður Byggingasamvinnufélags félags eldri borgara í Garðabæ undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um samstarf við uppbyggingu á íbúðabyggð fyrir eldri borgara við Arnarnesvog. Um er að ræða tveggja hektara svæði við voginn, neðan Hafnafjarðarvegar og norðan og vestan við Sjávargrund.

Arkitektastofan Arkídea vinnur nú að tillögu að deiliskipulagi íbúðarbyggðarinnar fyrir byggingasamvinnufélagið í samstarfi við skipulagsnefnd. Gert er ráð fyrir 50 til 70 íbúðum á svæðinu en skipulagsnefnd leggur áherslu á að byggðin verði lágreist og falli vel að umhverfi sínu.

Útivistarsvæði við voginn

Ásamt tillögu að deiliskipulagi íbúðarbyggðar eldri borgara er nú á vegum skipulagsnefndar unnið að tillögu að deiliskipulagi útivistarsvæðis við Arnarnesvog frá Ránargrund að Arnarneslæk. Í þeirri vinnu er lögð áhersla á útivist, landslag, útsýni og náttúru sem bætir aðgengi almennings að svæðinu. Einnig er lögð á það rík áhersla að samþætta núverandi og nýja byggð við útvistarsvæðið. Landslagsarkitektastofan Landslag hefur deiliskipulagsvinnu útivistarsvæðisins með höndum en ljóst er að það felast miklir og spennandi möguleikar í uppbyggingu útivistarsvæðis við voginn.

Í aðalskipulagi er svæðið skilgreint sem blönduð byggð og í gildandi deiliskipulagi Ása og Grunda er svæðið skilgreint sem grunnskóla- og leikskólalóð og sem opið svæði. Með uppbyggingu Sjálands hafa forsendur skipulagsins breyst þar sem grunnskóli og leikskóli hafa þegar risið í hverfinu.
Kynnt á næstu mánuðum
Deiliskipulag íbúðarbyggðar eldri borgara við Sjávargrund og deiliskipulag útivistarsvæðisins verða kynnt samhliða á næstu mánuðum og gefst þá bæjarbúum kostur á að kynna sér tillögurnar og koma með athugasemdir og ábendingar.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni mun Garðabær úthluta byggingasamvinnufélaginu lóðum á svæðinu til uppbyggingar á íbúðabyggð og félagið síðan ráðstafa lóðarréttindum eða íbúðum til félagsmanna. Yfirlýsingin er gerð með þeim fyrirvara að bæjarstjórn samþykki breytingar á gildandi deiliskipulagi svæðisins.