26. feb. 2009

Nýtt og betra tómstundaheimili

Framkvæmdir standa nú yfir við nýtt tómstundaheimili Hofsstaðaskóla sem verður staðsett í kjallara skólans
  • Séð yfir Garðabæ

Framkvæmdir standa nú yfir við nýtt tómstundaheimili Hofsstaðaskóla sem verður staðsett í kjallara skólans. Fyrirhugað er að ný aðstaða verði tekin í notkun í apríl. Margrét Harðardóttir skólastjóri segir að með henni verði hægt að bjóða upp á öflugra og faglegra starf í tómstundaheimilinu.

Skiptir máli að vera innan skólans

Tómstundaheimili Hofsstaðaskóla hefur í nokkur ár verið í íþróttahúsinu Mýrinni, en það húsnæði er ekki sérstaklega hannað fyrir starfsemi sem þessa með börnum. Margrét Harðardóttir, skólastjóri segir að stjórnendur og starfsfólk Hofsstaðaskóla sé sannfært um að breytingin verði til mikilla bóta fyrir starfsemi tómstundaheimilisins. Fjöldi barna dvelji þar daglega og miklu máli skipti að það sé staðsett innan veggja skólans. 

„Með því að fá tómstundaheimilið inn í skólann verður mun auðveldara að nýta aðra aðstöðu hans, svo sem mötuneyti og list- og verknámsstofur í starfsemi tómstundaheimilisins. Starfið í tómstundaheimilinu er og á að vera frábrugðið starfinu í skólanum, en jafnframt á það að vera lærdómsríkt, uppbyggjandi og skemmtilegt. Í tómstundaheimili Hofsstaðaskóla viljum við skapa börnunum hlýlegt, öruggt og notalegt umhverfi þar sem börnin eiga að fá að njóta sín í leik og starfi," segir Margrét.

Gott samstarf um málið

Hún bendir á að foreldraráð skólans hafi sl. sumar gert bókun þar sem það fagnar því að tómstundaheimilinu hafi verið fundinn staður innan veggja skólans. Málið hafi verið unnið í góðri samvinnu stjórnenda skólans, starfsfólks og foreldraráðs. Framkvæmdir við breytinguna gangi mjög vel og fyrirhugað sé að taka nýju aðstöðuna í notkun apríl eða strax eftir páska.