12. jan. 2009

Íþróttamaður Garðabæjar 2008

Vignir Þröstur Hlöðversson blakmaður með Stjörnunni er íþróttamaður Garðabæjar 2008
  • Séð yfir Garðabæ

Vignir Þröstur Hlöðversson, blakmaður með Stjörnunni er íþróttamaður Garðabæjar 2008. Kjöri hans var lýst við hátíðlega athöfn i gær, 10. janúar.

Vignir leiddi lið sitt, Stjörnuna, til sigurs í öllum keppnum á síðasta tímabili. Liðið vann deildina nokkuð örugglega og varð bikarmeistari í sjötta sinn í röð eftir sigurleik við KA. Liðið varð Íslandsmeistari eftir mjög spennandi leiki við Þrótt þar sem úrslitin réðust í oddaleik.

Stjarnan hefur unnið 17 af síðustu 18 titlum í blaki á 6 ára tímabili undir stjórn Vignis Hlöðverssonar en hann hefur verið fyrirliði liðsins og þjálfari undanfarin ár. Vignir er þeim kostum gæddur að getað spilað hvaða stöðu sem er. Hann er góð fyrirmynd í hreyfingunni og sönnun þess að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Í vor hljóp Vignir einnig undir bagga með A landsliðinu þegar hann var kallaður inn í hópinn tveimur vikum fyrir mót og spilaði sinn 94. landsleik sem er landsleikjamet allra íslenskra landsliðsmanna í blaki. Hann var valinn blakmaður ársins 2008.

Vignir Þröstur Hlöðversson er 41 árs og spilar enn á fullu í 1. deildinni.