11. des. 2013

Þróun og framfarir í skólastarfi

Skóladeild Garðabæjar fékk nýlega Comeniusar Regio styrk til tveggja ára samstarfs við sveitarfélagið Southend-on-Sea í Bretlandi. Þróun og framfarir í skólamálum verða í brennidepli í verkefninu.
  • Séð yfir Garðabæ

Skóladeild Garðabæjar fékk nýlega Comeniusar Regio styrk til tveggja ára samstarfs við sveitarfélagið Southend-on-Sea í Bretlandi. Þróun og framfarir í skólamálum verða í brennidepli í verkefninu.

Fjölbreyttar námsleiðir

Fyrsta skrefið í samstarfinu var heimsókn fulltrúa skóladeildar Garðabæjar, Fjölbrautaskólans í Garðabæ, Garðaskóla og Klifsins til Shoeburyness High School í Southend-On-Sea í byrjun nóvember sl. Í Shoeburyness High School stunda 1700 nemendur á aldrinum 11-18 ára nám. Í skólanum er lögð áhersla á að virkja áhugasvið nemenda og boðið upp á fjölbreyttar námsleiðir, sérstaklega á eldri stigum. Grannt er fylgst með námsframvindu allra nemenda skólans og hafa nemendur tekið miklum framförum í námi í kjölfarið á markvissri uppbyggingu námsleiða og hvetjandi námsumhverfis. Það var samdóma álit þeirra sem heimsóttu skólann að þar hefði tekist að þróa skilvirkar aðferðir til að fylgjast með námsframvindu hvers og eins og grípa inn í með markvissum hætti.

Hámarka árangur hvers og eins

Ætlunin með samstarfinu er að læra og þróa aðferðir í skólastarfi sem gera kennurum kleift að mæta hverjum og einum nemenda með krefjandi og áhugaverðum verkefnum og hámarka árangur hvers og eins. Sérstök áhersla er á að vinna með áhugahvöt drengja, draga úr brottfalli og auka áhuga nemenda af báðum kynjum á stærðfræði, náttúruvísindum og tæknimennt. Í ljósi umræðna um styttingu náms til stúdentsprófs þykir starfsfólki skóla og skóladeildar áhugavert að leita leiða til þess að stuðla að framförum nemenda og auka um leið möguleika þeirra í lífinu. Í verkefninu verður athugað hvort og þá hvað skortir á eðlilegan námshraða og áskoranir í námi á mismunandi skólastigum og á milli skólastiga og hvernig megi auka ástundun nemenda allan þeirra námstíma.

Auka ástundun og áhuga

Í febrúar 2014 er von á heimsókn frá Shoeburyness High School til Garðabæjar. Þá munu fulltrúar skólans kynna sér skólastarfið hér í Garðabæ. Í framhaldinu hefst frekari samvinna sem miðar að því að auka ástundun nemenda, vekja og viðhalda áhuga þeirra, þróa matstæki og kerfi til að halda utan um og skrá með skipulegum hætti athuganir á námsgengi nemenda.

Á myndinni tekur Margrét Björk Svavarsdóttir, sviðstjóri fræðslu- og menningarsviðs við táknrænni gjöf fyrir samstarfið úr hendi Mark Schofield, skólastjóra Shoeburyness High School. Gjöfin er skjöldur þar sem búið er að setja saman í eina mynd merki Shouburyness High School og Garðabæjar.