9. des. 2013

Fjölbreytt jóladagskrá á Garðatorgi

Laugardaginn 7. desember voru ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi. Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og þetta er í 44. sinn sem Garðbæingar fá þessa vinasendingu þaðan. Veðrið var eins og best var á kosið þegar athöfnin hófst um kl. 16
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 7. desember  voru ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi.  Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og þetta er í 44. sinn sem Garðbæingar fá þessa vinasendingu þaðan.  Veðrið var eins og best var á kosið þegar athöfnin hófst um kl. 16 á laugardaginn fyrir framan ráðhúsið  Blásarasveit Tónlistarskólans lék nokkur jólalög áður en fulltrúi Norræna félagsins Margrét Guðmundsdóttir bauð gesti velkomna.  Sendiherra Noregs á Íslandi, Dag Vernø Holter, afhenti tréð fyrir hönd Asker og Gunnar Einarsson bæjarstjóri veitti því viðtöku.  Bæjarstjórinn fékk svo til liðs við sig tvo nemendur úr Flataskóla til að aðstoða við að tendra ljósin á jólatrénu. Þarnæst komu nemendur úr Flataskóla upp á svið og sungu falleg jólalög og fengu að lokum aðstoð  frá tveimur jólasveinum sem skemmtu áhorfendum með söng og gleði.

Árlegt jólaleikrit í bókasafninu, myndlistarsýning Gunnellu og ný sýning í Hönnunarsafninu

Hefð er fyrir því að sýna jólaleikrit í Bókasafni Garðabæjar sama dag og ljósin eru tendruð á jólatrénu og í ár var það leikhópurinn Lotta sem sýndi ,,Rauðhettu í jólaskapi".  Fullt var út úr dyrum í bókasafninu og gestir voru á öllum aldri. Sama dag opnaði Gunnella málverkasýningu í Gróskusalnum á Garðatorgi þar sem hún sýnir nýleg olíumálverk. Sýningin nefnist ,,Hoppsalahei" og stendur til 15. desember nk.  Í tilefni dagsins var ókeypis aðgangur í Hönnunarsafn Íslands við Garðatorg og þar var opnuð ný sýning í innri sal safnsins sem nefnist Viðmið eða Paradigm. Sýningin er norsk farandsýning og samanstendur af verkum 18 norskra listamanna sem vinna með gler, keramik og málma. Gestir Hönnunarsafnsins gátu einnig notið þess að hlusta á Árnesingakórinn sem söng nokkur lög við opnun sýningarinnar.

Á fésbókarsíðu Garðabæjar er hægt að sjá fleiri myndir frá jóladagskránni á Garðatorgi sl. laugardag.