Samið um umsjón skógræktarsvæða
Garðabær og Skógræktarfélag Garðabæjar hafa gert með sér samning um víðtæka samvinnu um ræktun og umhirðu skógræktarsvæða í bæjarlandinu. Samningurinn nær til svæða sem skilgreind eru sem skógræktarsvæði í aðalskipulagi og eru utan Heiðmerkur. Þar má nefna Smalaholt, Sandahlíð, Hnoðraholt, Tjarnholt, Hádegisholt og Leirdal.
Samningurinn var undirritaður á afmælismálþingi Skógræktarfélags Garðabæjar sem var haldið föstudaginn 28. nóvember í fyrirlestrasal FG í tilefni af 20 ára afmæli félagsins.
Geri tillögur um skipulag svæðanna
Samningurinn er til tveggja ára og skv. honum tekur Skógræktarfélag Garðabæjar að sér tillögugerð um skipulag svæðanna auk þess að hafa umsjón með og sjá um framkvæmdir við svæðin. Tillögurnar skulu unnar í nánu samráði við tækni- og umhverfisssvið Garðabæjar. Vinnuhópar á vegum vinnuskóla Garðabæjar koma einnig til með að vinna að framkvæmdum á svæðunum í samráði við Skógræktarfélagið.
Skógræktarfélagið fær rekstrarstyrk frá bænum til að standa undir skyldum sínum við samninginn og skal upphæð hans ákvörðuð við fjárhagsáætlun hvers árs en miðað er við tveggja milljóna króna framlag á ári.
Fræðsla á vegum félagsins
Í samningnum er einnig greint frá hlutverki Skógræktarfélagsins við að sinna fræðslu til almennings. Félagið skal einnig úthluta ræktunarreitum til einstaklinga/fjölskyldna, félagasamtaka og skóla eftir því sem landrými leyfir.
Góðir fyrirlesarar
Meðal fyrirlesara á vel heppnuðu afmælismálþinginu voru Ragnhildur Skarphéðinsdóttir landslagsarkitekt, Aðalsteinn Sigurgeirsson forstöðumaður Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins, Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur og Jóhann Óli Hilmarsson formaður Fuglaverndarfélag Íslands.