18. nóv. 2008

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í Flata-, Hofsstaða- og Sjálandsskóla
  • Séð yfir Garðabæ


Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í skólum Garðabæjar. Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur ár hvert á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, þann 16. nóvember, sem að þessu sinni var sunnudagur.

Í Flata- og Hofsstaðaskóla var hátíðardagskrá föstudaginn 14. nóvember en nemendur 8. bekkjar í Sjálandsskóla héldu upp á daginn á mánudeginum.

Tvær hátíðardagskrár voru fluttar í sal Flataskóla þar sem allir nemendur skólans voru virkir þátttakendur. Söngur Flataskóla var frumfluttur að viðstöddum Haraldi Haraldssyni textaskáldi og Þóri Baldurssyni lagahöfundi. Foreldrafélag Flataskóla afhenti skólanum fána, bæði hátíðarfána sem staðsettur verður á sviði Hátíðarsalar skólans og fána sem mun blakta við hún á skólalóð skólans.

Í Hofsstaðaskóla komu nemendur í 1. - 4. bekk saman og hlýddu á upplestur. Það voru Sólon Baldvin og Jón Gunnar úr 4. R.S. og Freydís og Hilda úr 4. B.S. sem lásu sögu um tröllastrákinn Dynk. Krakkarnir í 3. og 4. bekk eru þessa dagana í stóru samvinnuverkefni um tröll og er stórt ævintýraland trölla að rísa á neðri hæð skólans. Á dagskránni voru einnig tónlistaratriði og söngur.

Nemendur 8. bekkjar í Sjálandsskóla héldu upp á daginn með ferð í miðbæ Reykjavíkur. Tilgangur ferðarinnar var að lesa ljóð fyrir gangandi vegfarendur. Nemendur unnu saman 2-3 í hóp og tengdu daginn jafnframt við þemað "1918" með því að taka sér stöðu við þekktar byggingar sem voru til á þessum tíma t.d. Stjórnarráðið, Alþingishúsið og Menntaskólann í Reykjavík. Nemendur fluttu ljóð m.a. fyrir ýmsa ráðamenn þjóðarinnar.

Myndin er frá hátíðardagskrá í sal Flataskóla. Fleiri myndir eru á vefjum skólanna.

www.flataskoli.is
www.hofsstadaskoli.is
www.sjalandsskoli.is