15. okt. 2008

Breyttar reglur um samræmd próf

Menntamálaráðuneytið hefur ákveðið að þeir sem þreyttu samræmd próf í 9. bekk sl. vor hafi val um hvort þeir taki samræmd próf aftur næsta vor eða ekki.
  • Séð yfir Garðabæ

Menntamálaráðuneytið hefur gefið út tilkynningu um að þeir nemendur sem þreyttu samræmd próf í 9. bekk sl. vor hafi val um hvort þeir taki samræmd próf aftur næsta vor eða ekki. Í áður útgefnum reglum frá ráðuneytinu kom fram að allir nemendur í 10. bekk ættu að taka samræmd próf næsta vor án undantekninga. 

Ráðuneytið ákvað að breyta reglunum eftir að skólanefnd Garðabæjar sendi þangað erindi og fór þess á leit að þeir sem áður hafa tekið samræmt próf hafi val um hvort þeir vilja endurtaka þau. 

Eftir næsta vor verða samræmd könnunarpróf í 10. bekk lögð fyrir að hausti en ekki að vori eins og verið hefur. Fyrstu samræmdu prófin að hausti verða lögð fyrir haustið 2009 þegar núverandi  9. bekkingar verða komnir í 10.bekk. 

Nemendur sem nú eru í 9. bekk hafa ekki rétt til að þreyta samræmd könnunarpróf næsta vor. 

Þeir nemendur sem nú stunda nám í svonefndum "flugferðum" 9. bekkjar í Garðaskóla verða, eins og alltaf hefur tíðkast í Garðaskóla, metnir til setu í framhaldsskólaáföngum 10. bekkjar samkvæmt skólaeinkunnum vorsins.

Einkunnir úr samræmdum könnunarprófum 10. bekkjar verða ekki birtar á einkunnablöðum skólans en nemendur geta valið um hvort einkunnir þeirra í samræmdum prófum teknum í 9. bekk komi fram eða ekki.  Einkunnablað með skólaeinkunnum berst öllum framhaldsskólum á rafrænan hátt.