13. okt. 2008

Nágrannavarsla í Lundum

Íbúar í efri Lundum fjölmenntu á fund sem haldinn var nýlega um nágrannavörslu í hverfinu.
  • Séð yfir Garðabæ

Íbúar í efri Lundum fjölmenntu á fund sem haldinn var nýlega um nágrannavörslu í hverfinu.

Nágrannavarslan er samstarfsverkefni Garðabæjar og svæðisstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu i Garðabæ. Efri Lundir eru fyrsta hverfið þar sem verkefnið er sett á laggirnar og reyndist mikill áhugi fyrir því á meðal íbúa.

Nágrannavarslan felst í því að íbúar taka höndum saman um að vernda heimili sín og nánasta umhverfi fyrir óboðnum gestum. Það er gert annars vegar með því að huga að forvörnum á eigin heimili og hins vegar með því að fallast á að líta eftir heimili nágranna sinna þegar þeir eru fjarverandi.

Þar sem nágrannar hafa sammælst um að taka upp virka nágrannavörslu fær fólk límmiða til að setja í rúður húsa sinna, til marks um að þar sé stunduð nágrannavarsla. Einnig verða skilti  sett upp í hverfinu.

Þegar verkefnið verður komið af stað í efri Lundum er ætlunin að útvíkka það til fleiri hverfa í bænum.

Atvinnu- og tækniþróunarnefnd sá um undirbúning verkefnisins í samstarfi við lögregluna.