10. okt. 2008

Grunnþjónusta skerðist ekki

Grunn- og velferðarþjónusta sem veitt er íbúum mun ekki skerðast skv. fréttatilkynningu frá stjórn SSH
  • Séð yfir Garðabæ
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ( SSH ) hélt aukafund miðvikudaginn 8. október til að ræða og fara yfir þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í efnahagslífi þjóðarinnar og áhrifa þeirrar stöðu á rekstur og afkomu sveitarfélaganna.
 
Þrátt fyrir að sú staða sem nú er uppi hafi nú þegar leitt til versnandi fjárhags sveitarfélaganna, og staða þeirra eigi að óbreyttu enn eftir að versna, þá verður lögð áhersla á að tryggja rekstur aðildarsveitarfélaga SSH með óbreyttum hætti á komandi mánuðum og að öll grunn- og velferðarþjónusta sem þau veita íbúunum mun ekki skerðast.
 
Sveitarfélögin munu í sameiningu leita allra þeirra leiða sem færar eru til að fjármagna rekstur og framkvæmdir á komandi ári til að tryggja að ekki komi til skerðingar á þjónustu og til að unnt verði að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir og vinna þannig svo sem kostur er gegn neikvæðum áhrifum núverandi ástands á atvinnustig á höfuðborgarsvæðinu.
 
Stjórn SSH telur afar mikilvægt að sveitarfélögin gangi samstillt til þeirra verkefna sem nauðsynleg eru til að bregðast við núverandi ástandi, og telur ekki síður mikilvægt að náið samráð verði milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins um lausnir og leiðir sem fara þarf til að ná þessum markmiðum.
 
Fréttatilkynning frá Stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.