2. okt. 2008

Leikskólabörn biðja um ruslatunnur

Nokkrar hressar stelpur úr leikskólanum Sjálandi skrifuðu fyrir stuttu bréf til bæjarstjóra Garðabæjar með ósk um fleiri ruslatunnur við skólann og á göngustíg meðfram sjónum við Sjáland
  • Séð yfir Garðabæ

Nokkrar hressar stelpur úr leikskólanum Sjálandi skrifuðu fyrir stuttu bréf til bæjarstjóra Garðabæjar með ósk um fleiri ruslatunnur við skólann og á göngustíg meðfram sjónum við Sjáland.

Tilefni bréfsins var hópavinna hjá leikskólanum þar sem börnin fengu fræðslu um umhverfismál.  Í hópavinnunni var einnig farið út að hreinsa til í kringum skólann og þá voru stelpurnar mjög duglegar við að tína rusl.  Skemmtileg umræða fór fram um hvaðan ruslið kæmi og við hvern ætti að tala til að fjölga ruslafötum í nágrenni skólans. Þá kom upp sú hugmynd hjá stelpunum að skrifa bæjarstjóranum bréf.

Með bréfinu fylgdu einnig skemmtilegar teikningar af bæjarstjóranum þar sem hann var með kórónu og í fylgd Sollu Stirðu. Enda voru stelpurnar alveg vissar um að bæjarstjóri Garðabæjar liti út eins og bæjarstjóri Latabæjar.  Að auki bjuggu stelpurnar til pappakórónu handa bæjarstjóranum.


Þessa mynd teiknaði Tinna Líf 4ra ára. Mynd af bæjarstjóranum, Sollu Stirðu, Höllu Hrekkjusvíni og mömmu Sollu Stirðu.

Vel var tekið í bón þeirra og í dag var sett upp ný ruslatunna stutt frá bílaplaninu við leikskólann og fljótlega verður sett upp ruslatunna við aðalgöngustíginn í nágrenni skólans.