19. sep. 2008

Skólafólk á skólabekk

Um 350 manns, starfsfólk leik- og grunnskóla í Garðabæ, sækir í dag námskeið í Ásgarði um virðingu og umhyggju í skólastarfi.
  • Séð yfir Garðabæ

Um 350 manns, starfsfólk leik- og grunnskóla í Garðabæ, sækir í dag námskeið í Ásgarði um virðingu og umhyggju í skólastarfi. Í dag er skipulagsdagur í skólunum í Garðabæ en þetta er í fyrsta sinn sem sá dagur er nýttur á þennan hátt, með sameiginlegu námskeiði fyrir starfsfólk allra skólanna á báðum skólastigum. Fyrirlesari og leiðbeinandi á námskeiðinu er Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessor og samstarfsfólk rannsóknasetursins Lífshættir barna og ungmenna við Háskóla Íslands.

Leiðir til að byggja upp góðan bekkjar- og skólabrag  

Leiðarljós umfjöllunarinnar verður gagnkvæm virðing og umhyggja við að byggja upp góðan bekkjar- og skólabrag og hvernig megi styrkja nemandann félagslega og námslega. Sjónum verður beint að mikilvægi þess að búa yfir góðri samskiptahæfni og fjallað um hvernig efla megi hæfni nemenda í samskiptum. Í því samhengi verður greint frá skólaþróunarverkefninu: Hlúð að félags- og tilfinningaþroska nemenda. Sérstök áhersla verður lögð á leiðir við að leysa árekstra og ágreiningsmál í bekkjar- og skólastarfi.

Umræðuhópar eftir hádegi

Eftir hádegi gefst hverri stofnun tækifæri á að ræða gildi þess sem fram hefur komið og um áframhaldandi starf í anda virðingar og umhyggju.  Skólastjóri hvers skóla mun skipta sínu fólki í hópa, 4-6 manns í hverjum hópi og ákvarða hópstjóra og ritara hvers hóps svo að tími til umræðu nýtist sem best.

Samræmt skóladagatal

Samræmt skóladagatal hefur verið í Garðabæ undanfarin ár sem þýðir að allir leik- og grunnskólar í bænum hafa skipulagsdag, sama daginn. Þetta gerir bænum m.a. kleift að bjóða starfsfólki sínu upp á jafn viðamikið námskeið og efla þannig endurmenntun í stofnunum sínum. Foreldrar eru ekki síður ánægðir með samræmt skóladagatal sem þýðir að börn i ólíkum skólum í bænum t.d. á leikskóla og í grunnskóla eiga frí sama dag.

Námskeiðið er haldið í boði forvarnanefndar, íþrótta- og tómstundaráðs, skóla- og leikskólanefndar Garðabæjar.