11. sep. 2008

Nýtt Garðatorg

Fyrsta skóflustungan að nýju Garðatorgi, var tekin þann 11. september 2008. Nýtt Garðatorg er annar áfangi í uppbyggingu á miðbæjarsvæði Garðabæjar.
  • Séð yfir Garðabæ

Fyrsta skóflustungan að nýju Garðatorgi, var tekin þann 11. september 2008.  Nýtt Garðatorg er annar áfangi í uppbyggingu á miðbæjarsvæði Garðabæjar og er það fasteignaþróunarfélagið Klasi hf. sem vinnur að uppbyggingunni  í samvinnu við Garðabæ.  Við torgið verða verslanir, þjónustufyrirtæki, menningarlíf og íbúðir. Framkvæmdum við torgið lýkur á árinu 2010.

Fyrstu skóflustungurnar tóku allir bæjarfulltrúar Garðabæjar og bæjarstjóri ásamt stjórnarformanni og framkvæmdastjóra Klasa hf.  Einnig lögðu hönd á plóginn börn af leikskólanum Kirkjubóli sem er í miðbæ Garðabæjar.

Verslanir og þjónusta á torginu vorið 2010

Fyrsti áfangi miðbæjarsvæðisins var tekinn í notkun í júní sl.  með nýjum verslunarkjarna við Litlatún. Þar eru meðal annars Hagkaup, Byr og þjónustustöð Skeljungs sem áður voru á Garðatorgi. Hjarta nýs miðbæjar verður hið nýja Garðatorg, glæsilegt bæjartorg sem verður miðpunktur mannlífs og menningar í Garðabæ.   Gert er ráð fyrir að verslanir og þjónustufyrirtæki við nýtt Garðatorg hefji starfsemi vorið 2010 en framkvæmdum við annan áfanga ljúki í lok þess árs. Framkvæmdir við Hönnunarsafn Íslands hefjast væntanlega haustið 2009. Að framkvæmdum loknum mun torgið einkennast  af sterkum bæjarbrag og blómstrandi mannlífi með verslun, þjónustu og lifandi menningarstarfsemi.

Hlýlegt yfirbragð og vandaður frágangur

Nýjar byggingar við Garðatorg skapa umgjörð um torgið með verslun og þjónustu á jarðhæð en fjölbreyttum íbúðum á efri hæðum.  Alls er um að ræða 5.500 fm af nýju verslunarhúsnæði og um 72 íbúðir.  Undir torginu verður bílageymsla fyrir viðskiptavini miðbæjarins.  Þá mun nýbygging fyrir Hönnunarsafn Íslands rísa við torgið en hönnunarsamkeppni um þá byggingu lauk í vor.  Mikill metnaður hefur verið lagður í hönnun bygginga og útisvæða þar sem áhersla er lögð á hlýlegt yfirbragð og vandaðan frágang.

Heilsurækt og sérverslanir
Þegar ráðist var í undirbúning verkefnisins var haft að leiðarljósi að hámarka gæði skipulags og að leggja mikinn metnað í útlit og efnisval bygginga.  Aukin þjónusta og íbúðir á miðbæjarsvæði samræmast vel kröfu samtímans um að færa þjónustu og verslun nær þungamiðju byggða og stytta þar með vegalengdir og stuðla að sjálfbærri þróun byggðar.  Áætlað er að hægt verði að fá ýmsa þjónustu og nálgast fjölbreytt úrval verslana á hinu nýja Garðatorgi.  Meðal annars verður þar heilsurækt í hæsta gæðaflokki og ýmsar sérverslanir.  
 
Klasi hf. hefur samið við Íslenska aðalverktaka hf. um framkvæmdina sem nú fer senn á fullt skrið.  Aðalhönnuðir verkefnisins eru THG arkitektar og um verkfræðihönnun sér VST–Rafteikning.  Þá hafa Engle architects verið Klasa til ráðagjafar en hugmyndafræði verkefnisins er byggð á þeirra hugmyndum.


Fleiri myndir frá fyrstu skóflustungunni.

Tölvuteiknaðar myndir af nýja miðbænum.