8. ágú. 2008

Nýtt þjónustuver

Nýtt þjónustuver Garðabæjar tekur til starfa í næstu viku
  • Séð yfir Garðabæ

Nýtt þjónustuver Garðabæjar tekur til starfa í næstu viku á jarðhæð ráðhússins við Garðatorg. Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarna mánuði sem fólust m.a. í því að tengja turninn við rýmið á jarðhæð þar sem þjónustuverið verður. Til þess þurfti að brjóta niður einn útvegg í turninum og búa til gang þar á milli.

Miklum framkvæmdum að ljúka

Vilhjálmur Kári Haraldsson þjónustustjóri er ánægður með hvernig til tókst við framkvæmdirnar. "Þetta var djörf hugmynd sem fól í sér mjög miklar framkvæmdir. Útlitið hér hefur verið ansi skrautlegt undanfarna mánuði. Sérstaklega þegar búið var að brjóta niður vegginn en ekki búið að tengja turninn við rýmið þar sem þjónustuverið verður. 

Núna þegar það er búið að innrétta rýmið finnst mér næstum eins og þetta hafi alltaf verið svona. Nýja þjónustuverið er bæði bjart og fallegt og ég trúi því að þar verði góður andi og að íbúar Garðabæjar geti gengið þar að góðri og aðgengilegri þjónustu," segir Vilhjálmur.

Í þjónustuverinu verður öll almenn afgreiðsla við viðskiptavini bæjarins. Þar verður hægt að fylla út og skila inn umsóknum, hægt er að ráðstafa hvatapeningum og fá teikningar af fasteignum svo eitthvað sé nefnt.

Þjónusta til þín

"Slagorðið okkar er þjónusta til þín. Við erum alltaf að leita leiða til að bæta þjónustu bæjarins. Við viljum gera hana eins aðgengilega fyrir íbúa og hægt er og helst að koma með hana til þeirra, t.d. með því að nýta vefinn gardabaer.is og Minn Garðabæ. Þjónustuver á jarðhæð er ein leið í viðbót til að gera þjónustuna aðgengilegri fyrir viðskiptavini okkar, önnur leið er símanúmerið 525 8500, við bjóðum viðskiptavinum að senda þeim SMS þegar teikningar eru yfirfarnar t.d., o.s.frv."

Reiknað er með að þjónustuverið verði tekið að fullu leyti til starfa á jarðhæðinni um miðja næstu viku.