Snyrtilegar lóðir 2008
Páll Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar afhenti í gær eigendum sjö íbúðarhúsalóða og einnar atvinnulóðar viðurkenningu fyrir snyrtilegar lóðir. Páll afhenti einnig íbúum botnlangans Löngumýri 41-59 skilti til viðurkenningar þess að gatan var valin snyrtilegasta gata bæjarins 2008.
Umhverfisnefnd gerir árlega tillögu til bæjarstjórnar um hverjir skuli hljóta viðurkenningar fyrir snyrtilegar lóðir.
Í ár hlutu viðurkenningu eigendur eftirtalinna íbúðarhúsalóða (lýsingar á lóðunum eru úr umsögn umhverfisnefndar):
Ásbúð 25
Garðurinn er umvafinn gróðri, stórum trjám, runnum og blómgróðri. Rúmgott dvalarrými er á baklóð, opið mót grasflöt. Í skjóli trjáa sést í skógarkofa sem geymir garðverkfærin og garðhúsgögn. Garðurinn er mjög vel hirtur og snýr vel mót götunni, enda er halli landsins vel nýttur.
Blikanes 7
Garðurinn að Blikanesi er stór og er mikið rými á baklóðinni. Grasflöt er sunnan hússins mót opnu svæði með útsýni út á Arnarnesvoginn. Dvalarsvæði á misháum pöllum þekja stóran hluta lóðarinnar. Sérstæður matjurtareitur prýðir garðinn. Auðséð er á ungum gróðri garðsins að hann er nýendurgerður. Allt er mjög snyrtilega frágengið.
Hegranes 13
Garðinum hefur verið haldið mjög vel við og virðist vera í upprunalegu formi. Húsið stendur innarlega á lóðinni og er rúmgott bílaplan tekið inn í garðinn. Bílaplanið er afmarkað við götu með hlöðnum grjótvegg og gróðri sem setur sinn svip á framlóð hússins. Hávaxin birkitré prýða garðinn og blómstrandi runnar. Í bakgarðinum eru matjurtareitir. Allt er mjög snyrtilegt.
Reynilundur 3
Eldri garður í neðra Lundahverfi, sem hefur verið vel viðhaldið. Mikill trjágróður prýðir garðinn s.s. gullregnið sem var í blóma þegar umhverfisnefnd skoðaði garðinn. Garðurinn er allur afar snyrtilegur og ber eigendur sínum vott um mikla umhyggju.
Reynilundur 1
Endurgerður garður. Lóðina umliggja götur á þrjá vegu, skjólgirðingar hafa verið reistar móts við Hofsstaðabraut og Karlabraut, þar fyrir innan er dvalarrými mót morgunsól. Skemmtilegt dvalarrými er vestan hússins sem nýtur síðdegissólar.
Tjarnarflöt 9
Snyrtilegur garður í Flatahverfi. Garðeigendur hafa fellt mörg stór grenitré og hleypt sólinni inn í garðinn. Garðurinn er skreyttur með ýmsum skemmtilegum hlutum t.d. sveppum úr grjóti, gömlu vagnhjóli og fleiru. Mikil alúð er lögð í garðinn.
Ægisgrund 14
Garðurinn hefur fallega aðkomu, með steinabeði og gróðri sem snýr fram að götu. Dvalarsvæði er rúmgott á baklóð til hvíldar og leikja fyrir barnabörnin. Garðurinn sem er umvafinn trjágróðri, er sérstaklega snyrtilegur og vel viðhaldið.
Viðurkenningu fyrir lóð fyrirtækis eða stofnunar:
Miðhraun 2
Að Miðhrauni 2 eru til húsa nokkur fyrirtæki.
Mjög snyrtileg fyrirtækislóð. Frágangi lóðarinnar er lokið á smekklegan hátt, sérstaklega norðan megin hússins með aðlögun að hrauninu. Það er lofsvert að frágangur lóðar fylgi í kjölfar uppbyggingu atvinnuhúsnæðis.
Langamýri 41 - 59, er snyrtilegasta gatan í Garðabæ 2008.
Þetta er innsti botnlanginn við Löngumýri. Vestan götunnar eru raðhús með átta görðum, en tvö fjölbýlishús austan megin. Botnlanginn er og hefur verið sérstaklega snyrtilegur og í góðri umsjón íbúa hans. Sérstaka athygli vakti lóð fjölbýlishússins að Löngumýri 57 fyrir fjölskrúðugan gróður og góða umhirðu.
Á myndinni eru viðurkenningarhafar ásamt Páli Hilmarssyni, Gunnari Einarssyni bæjarstjóra og Júlíu Ingvarsdóttur, formanni umhverfisnefndar.