2. júl. 2008

Náttúrufræðistofnun rís í Urriðaholti

Skólfustunga tekin af nýju húsi Náttúrufræðistofnunar Íslands
  • Séð yfir Garðabæ

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra tók í gær fyrstu skóflustungu að nýju húsi Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ. Við athöfnina tóku til máls Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar og Gunnar Einarsson bæjarstjóri, sem bauð stofnunina velkomna í Garðabæ.
 
Hús Náttúrufræðistofnunar verður 3.500 fermetrar að stærð og mun standa við Jónasartorg, vestast í Urriðaholti. Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti að gefa torginu þetta nafn til að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar, sem oft er kallaður fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn.
 
Urriðaholt ehf. reisir húsið og er eigandi þess, en Náttúrufræðistofnun hefur gert samning til 25 ára um leigu þess. Hönnuðir eru Arkís arkitektar. Áformað er að húsið verði tekið í notkun fyrir árslok 2009.
 
Við flutninginn í Urriðaholt verður öll starfsemi Náttúrufræðistofnunar á höfuðborgarsvæðinu undir sama þaki. Í nýja húsinu verður nýjustu tækni beitt til að rannsaka og tryggja varðveislu náttúrugripanna, sem margir hverjir eru mjög verðmætir og sjaldgæfir. Söfnun þeirra nær aftur til 1755, frá tímum náttúrufræðinganna Eggerts Ólafssonar, Jónasar Hallgrímssonar, Benedikts Gröndal og Bjarna Sæmundssonar. Þekktasti einstaki gripurinn er vafalítið uppstoppaður geirfugl, en þessi tegund dó út árið 1844.

Á myndinni frá vinstri eru: Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Jón Gunnar Ottóson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands.