5. jún. 2008

Framúrskarandi ævistarf

Arnheiður Borg kennari við Flataskóla hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi ævistarf við afhendingu íslensku menntaverðlaunanna í ár.
  • Séð yfir Garðabæ

Arnheiður Borg kennari við Flataskóla hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi ævistarf við afhendingu íslensku menntaverðlaunanna í ár. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands afhenti verðlaunin við athöfn í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ.

Brautryðjandi í lífsleiknikennslu

Arnheiður Borg lauk kennaraprófi árið 1965 og hefur starfað við kennslu síðan, lengst af í Flataskóla. Arnheiður var brautryðjandi í lífsleiknikennslu og samdi með öðrum kennurum kennsluefnið "Átak að bættum samskiptum", löngu áður en lífsleikni var skilgreind sem sérstök námsgrein, eins og segir í greinargerð sem lesa má á vef forseta Íslands.

Áhersla á lestrarkennslu

Arnheiður hefur starfað bæði sem almennur bekkjarkennari og sem sérkennari. Sem sérkennari lagði hún sérstaka áherslu á lestrarkennslu og samdi m.a. kennsluforrit fyrir byrjendur í lestri.

Eldhugi með jákvæða lífssýn

Í greinargerðinni er Arnheiður sögð vera eldhugi í kennslu og hvað varðar jákvætt og uppbyggjandi skólastarf. Hún hefur "með áherslu á jákvæða lífssýn og stuðningi við þá sem eiga í erfiðleikum með skólanámið stuðlað að farsæld nemenda sinna. Hún er einn þeirra kennara sem gera hvern skóla betri."

Myndin er af vef skrifstofu forseta Íslands þar sem einnig má lesa greinargerðina í heild sinni.