4. jún. 2008

Hlupu fyrir hátt í milljón

Nemendur Sjálandsskóla afhentu UNICEF á Íslandi nýlega 965.196 krónur sem þau höfðu safnað til styrktar bágstöddum börnum.
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendur Sjálandsskóla afhentu UNICEF á Íslandi nýlega 965.196 krónur sem þau höfðu safnað með þátttöku í UNICEF hlaupinu og með útgáfu ljóðabókar.

Fyrir hlaupið höfðu nemendur safnað áheitum fyrir hvern hlaupinn kíómetra. Nemendur komu mörgum á óvart þegar þeir hlupu allt að 15 kílómetra og margfölduðu þar með áheitaféð. Alls söfnuðu nemendur 865.196 krónur í hlaupinu. Nemendur í 7. bekk  bættu svo 100.000 krónum við upphæðina sem var ágóði af ljóðabók sem þau gáfu út.

Upphæðin var afhent fulltrúa frá Unicef á Íslandi sem um leið veitti skólanum viðurkenningu fyrir þátttöku í UNICEF hlaupinu.  Hann lagði við það tækifæri áherslu á það hve mikilvægt það er að taka þátt og að sýna í verki að maður vilji láta gott af sér leiða og hugsi um aðra. 

UNICEF samtökin eru leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn og starfa á vettvangi í nær 160 löndum víðsvegar um heim. Féð frá Sjálandsskóla kemur í góðar þarfir í verkefnum fyrir börn sem búa við bágar aðstæður.