14. maí 2008

Viðurkenning fyrir vorhreinsun

Nemendur og starfsmenn Sjálandsskóla fengu viðurkenningu fyrir framlag sitt til vorhreinsunar bæjarins á hátíð sem haldin var á Garðatorgi föstudaginn 2. maí.
  • Séð yfir Garðabæ

Sjálandsskóli fékk viðurkenningu fyrir framlag sitt til vorhreinsunar 

Nemendur og starfsmenn Sjálandsskóla fengu viðurkenningu fyrir framlag sitt til vorhreinsunar bæjarins á hátíð sem haldin var á Garðatorgi föstudaginn 2. maí. Í ávarpi á hátíðinni sagði Páll Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar að þátttakan í vorhreinsuninni hefði aldrei verið jafn góð og í ár. Alls sóttu 19 hópar um hvatningarstyrk vegna hreinsunar í sínu nærumhverfi auk allra þeirra einstaklinga sem létu hendur standa fram úr ermum við hreinsun á lóðum sínum.

Í ár var ákveðið að veita þeim hópi sem þótti standa sig áberandi vel í hreinsuninni sérstakt viðurkenningarskjal. Fyrsti handhafi slíks skjals er Sjálandsskóli en nemendur hans hafa unnið frábært starf við hreinsun í kringum skólann og reyndar langt út fyrir það.

Í máli Páls kom fram að yngstu börn skólans hreinsuðu skólalóðina, 3.-4. bekkur fór út með fjörunni og meðfram göngustígunum, 5.-6. bekkur fór í kringum lækinn og út með uppfyllingunni að smábátahöfninni og 7. bekkur fór út í Gálgahraun. Í hrauninu  var gríðarlega mikið drasl en þar safnaðist rusl í u.þ.b. 50 svarta plastpoka. Það er því ljóst að nemendur Sjálandsskóla hafa lagt mikið af mörkum og er skólinn því afar vel að viðurkenningunni kominn.

Á vef Sjálandsskóla eru myndir frá umhverfisdeginum.

Hópur nemenda úr Sjálandsskóla tók á móti viðurkenningarskjalinu fyrir hönd skólans.