23. jún. 2008

Samgönguráðherra kynnti sér umferðarmál í og við Garðabæ

Kristján Möller samgönguráðherra átti í morgun fund með stjórnendum Garðabæjar til að fara yfir stöðuna í samgöngumálum Garðbæinga.
  • Séð yfir Garðabæ
Kristján Möller samgönguráðherra átti í morgun fund með stjórnendum Garðabæjar til að fara yfir stöðuna í samgöngumálum Garðbæinga. Fundurinn hófst á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar þar sem ráðherra sá þá erfiðu stöðu sem íbúar í Ása- og Sjálandshverfi búa við til að komast í vinnu á morgnana. Garðabær hefur sett fram þau fyrirheit í aðalskipulagi að Hafnarfjarðarvegur verði settur í stokk til framtíðar til að auðvelda umferðarflæði innanbæjar og bæta hljóðvist.

Þá skoðaði hópurinn væntanleg brúarmannvirki á mótum Reykjanesbrautar og Vífilsstaðavegar. Að lokum var ráðherranum boðið í kaffi á bæjarskrifstofunum þar sem málin voru rædd.

Fundurinn var haldinn að frumkvæði Stefáns Konráðssonar, bæjarfulltrúa og formanns skipulagsnefndar Garðabæjar sem ritaði nýverið grein í Morgunblaðið þar sem hann vakti athygli á stöðu samgöngumála í Garðabæ og á höfuðborgarsvæðinu. Í greininni  hvatti Stefán ráðherra til að koma í heimsókn og fara yfir málin. Ráðherrann brást skjótt við þessari hvatningu og mætti til Garðabæjar í morgun. Á fundinum auk Stefáns voru formaður bæjarráðs, Erling Ásgeirsson, Guðjón Erling Friðriksson bæjarritari og  Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur.