12. jún. 2008

Lífsgæðaverðlaunin LivCom kynnt í Garðabæ

Alan Smith, framkvæmdastjóri alþjóðlegu lífsgæðaverðlaunanna LivCom, hélt fyrirlestur á hádegisverðarfundi í boði Garðabæjar fimmtudaginn 13. mars, þar sem hann kynnti verðlaunin fyrir sveitarstjórnarmönnum og öðrum gestum.
  • Séð yfir Garðabæ

Alan Smith, framkvæmdastjóri alþjóðlegu lífsgæðaverðlaunanna LivCom, hélt fyrirlestur á hádegisverðarfundi í boði Garðabæjar fimmtudaginn 13. mars, þar sem hann kynnti verðlaunin fyrir sveitarstjórnarmönnum og öðrum gestum.

Rammaskipulag fyrir Urriðaholt í Garðabæ fékk silfurverðlaun LivCom í desember síðastliðnum. Tilgangurinn með heimsókn Alan Smith til Íslands var að kynna verðlaunin og hvetja önnur sveitarfélög til að sækja um þau. Um 50 manns sóttu fundinn, sem var haldinn í golfskálanum á Urriðaholti.

Miða að því að auka lífsgæði

LivCom er stytting á heiti samtakanna Livable Communities. Samtökin njóta stuðnings umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og eru virt samtök á þessu sviði. Samtökin hafa það að markmiði að auka lífsgæði íbúa í þéttbýli, með því að byggja upp lífvænleg samfélög. Á hverju ári veita samtökin verðlaun þeim sveitarfélögum og verkefnum á sviði skipulags- og samfélagsmála, sem þykja skara framúr á þessum sviðum.


Alan Smith er potturinn og pannan í LivCom. Hann hefur langa reynslu af enskum sveitarstjórnarmálum, þar á meðal sem fjármálastjóri sveitarfélaga í tvo áratugi. Undanfarin ár hefur hann einbeitt sér að lífsgæðaáherslum og umhverfismálum sveitarfélaga, ekki aðeins í Bretlandi heldur um allan heim. Hann er m.a. formaður International Federation of Parks and Recreation Administration (IFPRA).

Íslensk sveitarfélög miðli reynslu sinni

Alan þekkir orðið ágætlega til íslenskra skipulagsmála eftir samskiptin við Garðabæ í tengslum við LivCom. Hann telur að íslensk sveitarfélög hafi margt fram að færa í umhverfis- og skipulagsmálum, ekki síst að miðla af reynslu af uppbyggingu og skipulagi við erfiðar veðurfarsaðstæður.

Þeir sem vilja kynna sér samtökin og verðlaunin nánar geta farið á vefinn www.livcomawards.com. Þar er hægt að nálgast upplýsingar á 30 tungumálum, þar á meðal á íslensku.

Hér má einnig lesa grein eftir Alan Smith um LivCom á ensku.