14. mar. 2008

Lífsgæðaverðlaunin LivCom kynnt í Garðabæ

Lífsgæðaverðlaunin LivCom kynnt í Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ

Alan Smith, framkvæmdastjóri alþjóðlegu lífsgæðaverðlaunanna LivCom, hélt fyrirlestur á hádegisverðarfundi í boði Garðabæjar fimmtudaginn 13. mars, þar sem hann kynnti verðlaunin fyrir sveitarstjórnarmönnum og öðrum gestum.

Rammaskipulag fyrir Urriðaholt í Garðabæ fékk silfurverðlaun LivCom í desember síðastliðnum. Tilgangurinn með heimsókn Alan Smith til Íslands var að kynna verðlaunin og hvetja önnur sveitarfélög til að sækja um þau. Um 50 manns sóttu fundinn, sem var haldinn í golfskálanum á Urriðaholti.

Alan Smith á Urriðaholti

Miða að því að auka lífsgæði

LivCom er stytting á heiti samtakanna Livable Communities. Samtökin njóta stuðnings umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og eru virt samtök á þessu sviði. Samtökin hafa það að markmiði að auka lífsgæði íbúa í þéttbýli, með því að byggja upp lífvænleg samfélög. Á hverju ári veita samtökin verðlaun þeim sveitarfélögum og verkefnum á sviði skipulags- og samfélagsmála, sem þykja skara framúr á þessum sviðum.

Alan Smith er potturinn og pannan í LivCom. Hann hefur langa reynslu af enskum sveitarstjórnarmálum, þar á meðal sem fjármálastjóri sveitarfélaga í tvo áratugi. Undanfarin ár hefur hann einbeitt sér að lífsgæðaáherslum og umhverfismálum sveitarfélaga, ekki aðeins í Bretlandi heldur um allan heim. Hann er m.a. formaður International Federation of Parks and Recreation Administration (IFPRA).

Alan Smith á Urriðaholti

Íslensk sveitarfélög miðli reynslu sinni

Alan þekkir orðið ágætlega til íslenskra skipulagsmála eftir samskiptin við Garðabæ í tengslum við LivCom. Hann telur að íslensk sveitarfélög hafi margt fram að færa í umhverfis- og skipulagsmálum, ekki síst að miðla af reynslu af uppbyggingu og skipulagi við erfiðar veðurfarsaðstæður.

Þeir sem vilja kynna sér samtökin og verðlaunin nánar geta farið á vefinn www.livcomawards.com. Þar er hægt að nálgast upplýsingar á 30 tungumálum, þar á meðal á íslensku.

Hér má einnig lesa grein eftir Alan Smith um LivCom á ensku.