10. mar. 2008

Eitt glæsilegasta fimleikahús landsins rís í Garðabæ

Fimleikahs
  • Séð yfir Garðabæ


Fyrsta skóflustungan að nýju fimleikahúsi við Ásgarð í Garðabæ var tekin laugardaginn 8. mars kl. 14 í tengslum við Íslandsmeistaramót í hópfimleikum sem fór fram í Ásgarði um helgina.

Fyrsta skóflustungan tekin

Nýja fimleikahúsið verður eitt hið glæsilegasta á landinu. Lögð hefur verið áhersla á að vanda til undirbúnings og hönnunar hússins í samstarfi við alla sem málið varðar, þ.m.t. fimleikadeild Stjörnunnar en yfirþjálfari deildarinnar Jimmy Ekstad hefur verið meðal ráðgjafa við undirbúninginn.

Lagt er upp með að húsið nýtist Garðbæingum á öllum aldri auk þess að vera aðsetur fimleikadeildar Stjörnunnar og að nýting þess verði fjölbreytt með auknu aðgengi skóla, leikskóla og eldri bæjarbúa.

Nýbyggingin samanstendur annars vegar af fimleikahúsi og hins vegar af tengibyggingu sem tengir saman alla starfsemi í íþróttamiðstöðinni Ásgarði. Fimleikahúsið er 60 x 40 m og er fimleikagólfið sjálft, sem er á neðri hæð, 59 x 32 m (lxb).

Aðkoma að íþróttamiðstöðinni verður um nýjan inngang sem tengir saman eldra íþróttahús, sundlaug, handboltahús og fimleikahúsið. Þá verður einnig brú í gegnum fimleikasalinn sem tengir Stjörnusvæðið við íþróttamiðstöðina.

Hönnun nýbyggingarinnar tekur mið af margvíslegri starfsemi íþróttamiðstöðvarinnar. Einnig var lögð áhersla á gott aðgengi og aðstöðu sem þjónar öllum aldurshópum og hreyfihömluðum. Fyrst og fremst á hönnun fimleikahússins að standast samanburð við það besta sem gerist í greininni enda er fimleikadeild Stjörnunnar ótvírætt með bestu fimleikadeildum landsins.

Nýbyggingin er hönnuð til að falla vel að umhverfinu, fimleikahúsið verður múrhúðað og ljósmálað líkt og eldra íþróttahúsið og inngangsbyggingin stendur koparklædd í forgrunninum.

Hönnuðir bygginganna eru hjá Arkitektur.is og VSB verkfræðistofu.