Mikið kapp í starfsmönnum Garðabæjar í Lífshlaupinu
Fjölmargar stofnanir Garðabæjar taka nú þátt í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins. Lífshlaupið felst í því að hvetja fólk til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur.
Vinnustaðakeppnin stendur yfir dagana 4.-14. mars. Þá daga skrá allir hversu lengi þeir stunda líkamsrækt eða aðra hreyfingu á hverjum degi og felst keppnin í því hvar starfsmenn hreyfa sig mest á þessum tíma. Til að fá dag skráðan þarf að stunda miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu í lágmark 30 mínútur. Skilgreining á því hvaða hreyfing fellur undir þessa lýsingu er á vef Lífshlaupsins. Lífshlaupið kemur á góðum tíma fyrir Garðabæ en þar hefur verið öflugt heilsuverkefni í gangi að undanförnu. Má þar nefna að allir starfsmenn fá styrk til að stunda líkamsrækt og að á nýju mötuneyti bæjarskrifstofanna er lögð áhersla á léttan og hollan mat.
Á bæjarskrifstofunum er starfsfólki skipt í fjögur lið og er hörð innbyrðis keppni á milli þeirra. Til að hvetja fólk enn frekar til dáða var ákveðið að í dag, föstudaginn 7. mars, ættu allir að mæta í íþróttafötum í vinnuna. Bragurinn á skrifstofunum var því nokkuð ólíkur því sem gerist dags daglega eins og sjá má á myndunum.