27. feb. 2008

Fyrstu skrefin að mótun íþrótta- og tómstundastefnu

Mikill metnaður er í mannvirkjagerð fyrir íþrótta- og tómstundastarf í Garðabæ en styrkja má innra starf félaganna og e.t.v. auka fjölbreytni í því starfi sem er í boði. Þetta var samhljóma álit vinnuhópa á íbúaþingi um mótun íþrótta- og tómstundastefnu fyrir Garðabæ sem haldið var í Flataskóla laugardaginn 23. febrúar sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Mikill metnaður er í mannvirkjagerð fyrir íþrótta- og tómstundastarf í Garðabæ en styrkja má innra starf félaganna og e.t.v. auka fjölbreytni í því starfi sem er í boði. Þetta var samhljóma álit vinnuhópa á íbúaþingi um mótun íþrótta- og tómstundastefnu fyrir Garðabæ sem haldið var í Flataskóla laugardaginn 23. febrúar sl.

Ragnhildur Inga Guðbjartsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundaráðs hóf þingið með því að fara yfir stöðuna í málaflokknum í dag og nefna það sem er framundan. Í máli hennar kom m.a. fram að mótun heildstæðrar íþrótta- og tómstundastefnu er ætlað að vera liður í því að efla málaflokkinn enn frekar. Ragnhildur sagði frá fyrirhugaðri byggingu fimleikahúss við Ásgarð sem á að vera fullbúið haustið 2009 og að á þessu ári verði hafist handa við byggingu íþróttahúss og sundlaugar við Sjálandsskóla þar sem jafnframt er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir ýmsar jaðaríþróttir. Þá nefndi hún framtíðarsvæði fyrir hestamenn í Garðabæ sem hefur verið tryggt, uppbyggingu í Vetrarmýri og áform GKG um frekari uppbyggingu á sínu svæði.

Að erindi Ragnhildar loknu skiptu fundarmenn sér í vinnuhópa sem fengu það verkefni að skrifa niður það sem þeir heyrðu og einnig það sem þeir heyrðu ekki en vildu hafa heyrt. Vinnuhóparnir kynntu að lokum niðurstöður sínar.

Sem fyrr sagði voru vinnuhóparnir sammála um að mikill metnaður væri í mannvirkjagerð fyrir íþrótta- og tómstundastarf í Garðabæ. Þar var vísað til þess sem talið er upp hér að ofan en einnig nefnd útilífsmiðstöð skáta sem verður i Heiðmörk. Fundarmenn vildu margir sjá meiri fjölbreytni hvað varðar íþróttaiðkun og spunnust nokkrar umræður um hvernig yrði helst stuðlað að henni. Þá var rætt um samstarf grunnskóla við íþrótta- og tómstundafélög, góða aðstöðu fyrir siglingaklúbb við Arnarnesvog og margt fleira.

Niðurstöður hópanna verða skráðar niður og nýttar í áframhaldandi vinnu við mótun íþrótta- og tómstundastefnu Garðabæjar.